Jarðskjálftahrina nærri Húsavík

Frá Húsavík.
Frá Húsavík. mbl.is/Hafþór

Tölu­verð jarðskjálfta­hrina hef­ur verið í gangi frá því um miðjan dag í gær um 14 kíló­metra VNV við Húsa­vík.

Böðvar Sveins­son, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, seg­ir að skjálfta­virkn­in hafi verið nokkuð stöðug. Hann seg­ir að rúm­lega 60 skjálft­ar hafi mælst síðastliðinn sól­ar­hring, sá stærsti 1,8 að stærð, sem mæld­ist um klukk­an hálf fimm í morg­un.

„Það eiga sér stað skjálft­ar á þessu svæði af og til en þetta er þekkt skjálfta­svæði,“ seg­ir Böðvar.

Böðvar seg­ir að dregið hafi úr skjálfta­virkn­inni í Ljósu­fjalla­kerf­inu, nán­ar til­tekið við Grjótár­vatn, en um 20 skjálft­ar mæld­ust þar í gær.

„Það varð tals­verð skjálfta­hrina á þessu svæði á milli klukk­an 18 og 21 í gær­kvöld en hún hef­ur dottið niður og það hafa eng­ir skjálft­ar mælst frá því klukk­an 22 í gær­kvöld,“ seg­ir Böðvar en stærsti skjálft­inn mæld­ist 2,4 að stærð.

Skjálfti að stærðinni 3,3 vest­ur af Keili

Grjótár­vatn er inn­an eld­stöðva­kerf­is­ins Ljósu­fjalla á Snæ­fellsnesi og í janú­ar jókst skjálfta­virkni á svæðinu veru­lega og óróa­púls mæld­ist í kerf­inu.

Spurður út í stöðuna á Reykja­nesi seg­ir Böðvar að mælst hafi fleiri skjálft­ar á milli miðnætt­is og til klukk­an 3 í nótt en það sé ekk­ert til að hafa áhyggj­ur af. Stærsti skjálft­inn mæld­ist 3,3 að stærð rétt eft­ir klukk­an 3 í nótt vest­ur af Keili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka