Töluverð jarðskjálftahrina hefur verið í gangi frá því um miðjan dag í gær um 14 kílómetra VNV við Húsavík.
Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að skjálftavirknin hafi verið nokkuð stöðug. Hann segir að rúmlega 60 skjálftar hafi mælst síðastliðinn sólarhring, sá stærsti 1,8 að stærð, sem mældist um klukkan hálf fimm í morgun.
„Það eiga sér stað skjálftar á þessu svæði af og til en þetta er þekkt skjálftasvæði,“ segir Böðvar.
Böðvar segir að dregið hafi úr skjálftavirkninni í Ljósufjallakerfinu, nánar tiltekið við Grjótárvatn, en um 20 skjálftar mældust þar í gær.
„Það varð talsverð skjálftahrina á þessu svæði á milli klukkan 18 og 21 í gærkvöld en hún hefur dottið niður og það hafa engir skjálftar mælst frá því klukkan 22 í gærkvöld,“ segir Böðvar en stærsti skjálftinn mældist 2,4 að stærð.
Grjótárvatn er innan eldstöðvakerfisins Ljósufjalla á Snæfellsnesi og í janúar jókst skjálftavirkni á svæðinu verulega og óróapúls mældist í kerfinu.
Spurður út í stöðuna á Reykjanesi segir Böðvar að mælst hafi fleiri skjálftar á milli miðnættis og til klukkan 3 í nótt en það sé ekkert til að hafa áhyggjur af. Stærsti skjálftinn mældist 3,3 að stærð rétt eftir klukkan 3 í nótt vestur af Keili.