„Tíðin er góð og bændur eru farnir að huga að vorverkum. Þeir eru því farnir að kalla eftir að fá áburðinn svo ég má hafa mig allan við. Ég þarf að klára þetta allt helst fyrir miðjan maí,“ segir Pétur Daníelsson vörubílstjóri á Hvammstanga.
Hann er starfar fyrir Sláturfélag Suðurlands, sem er umsvifamikið í innflutningi og sölu á áburði til bænda víða um land. Þar eru bændur í Húnavatnssýslum og á Ströndum stór hópur og þjónusta við þá, viðskiptin og flutningur heim á bæi er starf Péturs í áraraðir. Hann sinnir þó mörgum fleirum, samanber að úti á landi þarf að manna marga pósta svo þetta undarlega fyrirbæri sem heitir samfélag virki sem skyldi.
Blaðamaður hitti Pétur að máli á dögunum þegar hann var að færa til áburð við höfnina á Hvammstanga. Í vor afgreiðir Pétur alls um 2.500 tonn af áburði, sem koma með fjórum flutningaskipum. Þrjú þeirra leggjast að á Hvammstanga en það fjórða á Sauðárkróki. Áburðurinn kemur í stórum sekkjum og hver þeirra tekur 600 kg. Algengt er þá að á vörubílsvagn í hverri ferð komist 45 slíkir og svo er ekið af stað.
Algengt verð á áburði í dag er rétt tæplega 100 þús. kr. per tonn. Fyrir þremur árum, fyrst eftir innrásina í Úkraínu, var verðið þó mun hærra og var nærri 120 þús. kr. tonnið þegar mest var. Nú hafa málin og verð náð jafnvægi að nokkru leyti og við það vænkast hagur.
„Vegirnir á þessu vori eru satt að segja alveg ótrúlega góðir og bera bílana vel; að minnsta kosti eru ferðirnar með þungan farm ekki margar. Vissulega eru holóttar malarbrautir frekar hvimleiðar en þetta hefur alveg sloppið til í vor,“ segir Pétur um áburðarferðir sínar. Þær eru til fremstu dala og út á ystu nes, eins og stundum er sagt í ofurlítið upphöfnum stíl, nema hvað hér gildir þetta í orðsins fyllstu merkingu. Á stórum Volvo-bílum sem Pétur gerir út, tvo frekar en einn, er ekið um allar sveitir og ekkert gefið eftir.
„Hér í Húnaþingi fer ég með áburð út á Skaga, inn í Vatnsdal og um Miðfjörðinn og á Ströndum alveg norður í Árneshrepp. Þetta er heilmikil yfirferð og bæirnir sem fara þarf á eru tæplega hundrað. Algengt er að hver bóndi kaupi þetta 20-40 tonn af áburði, en slíkt fer auðvitað eftir stærð búa og öðru. Í þetta þarf svo auðvitað góðan vörubíl og ekki sakar að hafa krana til að hífa sekkina af pallinum, enda þótt bændur séu reyndar margir hverjir orðnir ótrúlega vel tækjum búnir,“ segir Pétur.
Áburðurinn sem SS flytur inn og selur er af tegundunni Yara og kemur frá verksmiðjum í Noregi, Finnlandi og Þýskalandi. Þetta er einkorna áburður, það er að í hverju korni eru köfnunarefni, fosfor og kal. Blandan heitir á máli fagmanna NPK en þarna fara saman helstu næringarefnin sem þarf í moldina svo gróður dafni og hægt verði að ná að heyja túnin.
„Reynsla bænda af þessum áburði hefur verið góð og margir velja Yara; fólk úti í sveitunum, sem mér finnst afar skemmtilegt að hitta og eiga samskipti við,“ segir Pétur Daníelsson, sem hefur verið í vörubíla- og vinnuvélaútgerð í Húnaþingi í hálfa öld.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.