Rafmennt segist hafa tafarlaust boðið fram aðstoð sína í kjölfar gjaldþrots Kvikmyndaskóla Íslands. Það hafi hins vegar komið skýrt fram frá embættismönnum mennta- og barnamálaráðuneytisins að ekki yrði unnið að þeim möguleika.
Þetta segir í yfirlýsingu frá Rafmennt þar sem fram kemur að mikilvægt sé að mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristinsson, fái réttar upplýsingar.
Segir í yfirlýsingunni að Rafmennt hafi brugðist við með það að markmiði að tryggja órofið nám nemenda við Kvikmyndaskólann og hefja samtal um framtíð kvikmyndamenntunar á Íslandi.
Þá hafi fulltrúar skólans haft samband við viðeigandi ráðuneyti og í kjölfarið skiptastjóra og eigendur húsnæðis skólans og lagt svo fram tillögur sem miðuðu að því að ljúka önninni og finna farsæla leið fram á við.
„Eftir ítrekaðar tilraunir fengum við loks stuttan fund með embættismönnum mennta- og barnamálaráðuneytisins. Þar kom skýrt fram að ekki stæði til að vinna með Rafmennt að lausn fyrir nemendur – hvorki til skemmri tíma né til framtíðar. Námið skyldi fara til Tækniskólans og ekki yrði unnið að öðrum möguleikum.“
„Það er mikilvægt að ráðherra fái réttar upplýsingar. Við höfum frá upphafi boðið fram samstarf, stuðning og fjármögnun – ekki til að „taka yfir einkaskóla“, heldur til að bregðast við stöðu sem upp var komin af ábyrgð og fagmennsku,“ segir í yfirlýsingunni.
„Ég hélt að þeir ætluðu að taka þetta yfir. Síðan skildist mér að þeir hefðu hætt. Núna eru þeir komnir aftur, og ég mun þá skoða þetta áfram,“ sagði Guðmundur við mbl.is í gær, er hann var spurður um vilja Rafmennt til að taka yfir kennslu Kvikmyndaskólans.
Segir í yfirlýsingunni frá Rafmennt að fyrirtækið sé ekki einkaaðili með sérhagsmuni í málinu.
„Við erum viðurkenndur menntaaðili með rekstrarleyfi frá ráðuneytinu sjálfu, og að baki okkur standa hagsmunasamtök launafólks og atvinnulífs. Okkar eina markmið hefur verið að tryggja hagsmuni nemenda og að byggja upp framtíðarmenntun í kvikmyndagerð í takt við þarfir greinarinnar.
Við erum enn tilbúin í samstarf. En það krefst þess að vilji til samtals sé fyrir hendi – bæði núna og til framtíðar.“