Leikskólastjóri á Maríuborg í Grafarholti hefur hætt störfum eftir þrýsting frá foreldrum sem höfðu lýst vantrausti á hendur henni. Hún segist hafa orðið fyrir einelti að hálfu samstarfsfólks sem hafi komið sögusögnum á kreik til að ná höggi á hana.
Agnes Veronika Hauksdóttir, nú fyrrverandi leikskólastjóri, segir í samtali við mbl.is að hún hafi gert samkomulag um starfslok við Reykjavíkurborg. Hún sé að yfirgefa skólann út af „hávaða“ en ekki af „faglegum rökum“ eins og hún orðar það.
„Það var ekki hægt að segja mér upp því að ég var ekki búin að gera neitt,“ segir Agnes, sem vísar á bug ásökunum foreldra og starfsfólks um slæma starfshætti.
Foreldrar 60 barna sem ýmist eru eða hafa verið á leikskólanum lýstu í janúar vantrausti á hendur Agnesi. Foreldrarnir sökuðu hana um brot á lögum og sögðu en fremur að hegðun hennar hefði leitt til þess að 17 starfsmenn hið minnsta hefðu sagt upp.
„Þegar það verða stjórnendaskipti er ótrúlega mikilvægt að það verði breytingar í skólanum og það er bara eitthvað sem maður getur ekki ráðið við,“ segir Agnes spurð út í þetta.
„Það er ekkert sem ég gerði persónulega til að valda því að fólk færi að segja upp. Það er ákvörðun hvers og eins undir hverjum maður vill vinna.“
Hún segir rannsókn hafa verið gerða á störfum hennar, þar hafi ekki neitt fundist sem væri grundvöllur til brottrekstrar.
Hún segir að fólk starfi af fagmennsku í borginni við eftirlit stjórnenda. „Það er sannarlega hægt að treysta þeim. Þegar foreldrar eru komnir að stjórnsýslu eru málin orðin flókin af því að þá skortir þessa heildarsýn, það vantar alltaf hina hliðina,“ segir hún.
Agnes vill árétta að hún leggi mikið upp úr fagmennsku í starfi.
„Þetta á náttúrlega upptök sín í mjög alvarlegu einelti,“ bætir Agnes Veronika við. Hún segir nokkra samstarfsmenn sína hafa lagt sig í einelti eftir að ljóst varð að hún tæki við starfi leikskólastjóra árið 2023 en þá hafði hún þegar unnið á leikskólanum í tíu ár.
Þetta samstarfsfólk hafi reynt að koma höggi á hana vegna persónulega erja. Í bréfinu í janúar kröfðust foreldrarni þess að hún segði starfi sínu lausu, sem hún hefur nú gert þrátt fyrir að hafa elskað starfið.
„Ég lifði fyrir þetta starf. Ég elskaði þetta og þetta er búið að vera hrikalega erfiður tími,“ segir hún.
Agnes segist hafa fengið vinnu á öðrum stað, og í öðrum geira. Þannig að nú tekur sennilega annar leikskólastjóri við.
„Ég vona bara að það verði tekið vel á móti honum.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.