Drengirnir fjórir sem slösuðust í alvarlegu umferðarslysi á Siglufjarðarvegi, við Grafará, sunnan Hofsóss, á föstudagskvöld eru á gjörgæslu Landspítalans en þangað voru þeir fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar og sjúkraflugvél.
Pétur Björnsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, segir í samtali við mbl.is að lögregla hafi fengið þær upplýsingar í gær að drengirnir, sem er á aldrinum 17-18 ára, séu á gjörgæslu og það yrðu ekki gefnar frekari upplýsingar um líðan þeirra.
Pétur segir rannsókn fari fram á bílnum sem drengirnir voru í en að tildrög slyssins liggi ekki fyrir að svo stöddu. Hann segir að rannsókn standi yfir hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi vestra ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa og hún muni taka einhverjar vikur.
Bifreiðin, sem ekið var í norðurátt, lenti utan vegar með þeim afleiðingum að ökumaður hennar og þrír farþegar slösuðust. Hópur ungmenna, tæplega 30 einstaklingar, sem voru á leið í samkvæmi á Hofsósi, var á vettvangi slyss er lögreglu bar að.