Atferli íslensks stjórnmálafólks á samfélagsmiðlum er alltaf undir smásjá og því gert skil með reglubundnum og skemmtilegum hætti í Spursmálum. Yfirferðina má sjá í meðfylgjandi myndskeiði eða í rituðu máli hér að neðan.
Léttleiki og skemmtilegheit voru alltumlykjandi á samfélagsmiðlunum í vikunni sem nú er að líða. Veðurkortin sýndu tveggja stafa hitatölur og skynfærin í blússandi örvun. Fólk er farið að finna lyktina af sumrinu og það hefur alla jafna góð áhrif á geðheilsu landsmanna. Stjórnmálafólkið var alla vega í sérlega góðum gír. Það var nú kannski kominn tími til! Óþarfi að vera alltaf eins og harðfiskur í skapinu.
Um síðustu helgi steig Halla Hrund út fyrir þægindarammann þegar hún þrammaði um tískupalla fyrir hringrásarverslunina Elley ásamt öðrum áhrifakonum landsins. Þetta var hluti af landssöfnun Á allra vörum fjáröflunarátaksins. Að sjálfsögðu lét Halla Hrund ekki sitt eftir liggja og var sko meira en til í að finna fyrirsætuna í sér fyrir þennan góðan málstað.
Fregnir bárust af því að einn af hverjum fjórum þingmönnum voru í útlöndum í vikunni - aldeilis flottheit á þessu fólki alltaf. Diljá Mist var ein þeirra sem ferðuðust til Brussel og virtist hún vera í sérdeilis góðum félagsskap líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. þarna hafa nú einhverjar uppákomurnar átt sér stað. En þið vitið hvað þeir segja: „What happens in Brussel stays in Brussel.“
Svo verð ég að segja það enn og aftur. Margur er knár þótt hann sé smár og þar er Diljá Mist engin undantekning. Hún hafði lofað sér í útvarpsviðtal hér heima þrátt fyrir að það skaraðist á við þátttöku hennar í Evrópuþinginu. Hún var ekkert að fresta því heldur fann hún bara einhverja Gustavsberg klósettdollu þarna í útlandinu og sat á tojaranum á meðan hún talaði tæpitungulaust í símafjarviðtali. Það mættu fleiri vera eins og hún. Hún finnur bara út úr hlutunum.
Hanna Katrín var svo sæt vinkona og kastaði afmæliskveðju á flokksbróður sinn og vin, Simma Gumm, með þessari æðislegu mynd af þeim tveimur blindblekuðum að öllum líkindum. Hver hefur ekki lent í því að „góðir“ vinir birti ljótar myndir af manni á afmælisdaginn til að upphefja sjálfan sig? Það er svo klassískt.
Heiða Björg kom á óvart í vikunni þegar hún sannaði það að gellur geta líka verið skáknördar. Hún tók þátt í skákmóti í Vín í Austurríki, nei ég meina í Vin á Hverfisgötu. Lítill sem enginn munur þar á. Henni er greinilega margt til lista lagt en það var ástæða til að hafa áhyggjur af þessu vöfflufjalli sem borið var á borð þennan ágæta dag fyrir skákmótsgesti. Áreiðanlega hafa fleiri en Diljá Mist þurft að læsa sig inni á salerni til að tefla við páfann.
Framsóknar-Stebba var örlítið heitt í hamsi í vikunni. Vitið þið ekki hver hann er? Nei, það er ekkert skrýtið. Þetta er þarna huldumaðurinn í Framsókn sem enginn hefur séð áður og veit hver er. Heimildir herma samt að hann sé oftast alveg góður sko, með gott jafnaðargeð. En honum ofbauð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og strunsaði út úr þingsal ásamt allri stjórnarandstöðunni þegar Inga Sæland tók til máls og „the rest is history“.
Jóhann Páll, eða Jey Pí eins og hann er stundum kallaður, orkumálaráðherra eða hvað hann er, ætlar að punga út 160 milljónum til þess að íslenskir garðyrkjubændur geti framleitt meira íþróttanammi. Hann kallar þetta orkusparnað fyrir samfélagið en þetta er pottþétt meira af svona þyngdarstjórnunar hugsjón. Við vitum sko alveg hvernig þessi maður hugsar. Hann blekkir okkur ekki.
Hvað eiga Snúlli Másson og Sólveig Anna sameiginlegt? Margt, mjög margt. Í vikunni kom það upp úr dúrnum og þau Snúlli og Sólveig eiga meira sameiginlegt en við héldum. Þrátt fyrir að vera fræg fyrir að aðhyllast öfgar í sitthvora áttina þá sameinast þau í gegnum hatur sinn á vókisma. Þetta hefði engan grunað. Lífið hættir bara ekki að gefa.
Talandi um Snúlla Másson. Hann er náttúrulega ótrúlegur, það verður ekki af honum tekið. Eina stundina veldur hann mega usla og hina stundina eru allir að míga í buxurnar yfir því hvað hann er fyndinn og skemmtilegur. Í það minnsta lá allt Alþingi yfir uppistandi hans í ræðustól í vikunni.
Logi Einarsson brá sér í heimsókn í Landbúnaðarháskóla Íslands og hitti þar fyrir hann Guttorm. Eða heita ekki annars allar beljur því nafni? Tókst með þeim Loga og Guttormi einstakur vinskapur sem endaði með innilegum kveðjukossi. Hann er náttúrulega þekktur fyrir að vera alger beljuhvíslari hann Logi. Nú eða Guttormur bara ráðherrasleikja? Sitt sýnist hverjum.
Kristrún Frosta var ein af ófáum sem staddir voru í Brussel á dögunum. Þar ræddi hún um óvissuna á alþjóðasviðinu við Ursulu von der Layen. Á þessari mynd má sjá gáfur og glæsileika í öðru veldi. Algerlega „iconic“.
Sverrir Bergmann „is back“ og hafði í nógu að sýsla í vikunni en það er óhætt að segja að hann sé hinn nýi stuðmaður á þinginu. Megi Jakob Frímann fara að vara sig. Tónlist spilar stóra rullu í lífi Svessa og það sást greinilega á samfélagsmiðlunum í vikunni þegar hann var flautandi hið stórgóða heilalímandi þemalag Klaufabárðana við kaffivélina og var einstaklega léttur á því. Margir velta því fyrir sér hvort hann sé að senda dulin skilaboð með lagavalinu? Ríkisstjórnin og Klaufabárðarnir - einhver samnefnari þar?
Svessi hélt svo stuðinu áfram og gladdi sitt Samfó-fólk með gjöf. Gjöf sem innihélt þennan forláta skemmtara sem hér sést. Gleðin skein úr hverju andliti flokkssystkina hans og að sjálfsögðu upphófst samsöngur á slagaranum sígilda Lean on me. Hann er gull af manni hann Svessi. Það verða auðvitað allir stjórnmálaflokkar að eiga almennilega skemmtara - enn ekki hvað?!
Sjálfukóngurinn Pawel Baroszek svaraði heldur betur kallinu og meira til. Hann blessaði okkur ekki með einni sjálfu í vikunni heldur tveimur. Takk fyrir þig, Pawel.
Nýjasti þáttur Spursmála er aðgengilegur í heild sinni í spilaranum hér að neðan: