Það þykir ekki nýlunda að fylgst sé grannt með sendifulltrúum erlendra ríkja í Moskvu, en greint var frá því í síðasta mánuði að starfsfólk íslenska sendiráðsins í Moskvu hefði mátt þola ýmiss konar eftirlit og jafnvel ógnanir, og að þær hefðu spilað sinn þátt í því að ákveðið var að loka sendiráðinu.
Hannes heitinn Jónsson, sem var sendiherra í Moskvu á árunum 1974-1980, greinir frá því í ævisögu sinni, Sendiherra á sagnabekk, að vestrænir erindrekar hafi gengið að því sem vísu að íbúðir þeirra væru hleraðar, og að það hefði ekki byggst á ágiskunum, heldur fullri vissu þar um.
Hannes kom fyrst til Moskvu sem sendiráðunautur og viðskiptaráðunautur árið 1966, en nokkurn tíma tók að gera upp þá íbúð sem Hannes og Karina Waag eiginkona hans áttu að búa í. Hannes segir í ævisögu sinni að verkið, sem hefði líklega tekið íslenska iðnaðarmenn viku, hafi tekið átta vikur, en þau hjónin voru meðal annars kölluð til einu sinni til þess að aðstoða verkhópinn við að velja lit á málningu.
Þegar loksins var flutt í hið nýja heimili var engin málning á veggjunum heldur veggfóður á allri íbúðinni. Þegar Hannes spurði dr. Kristin Guðmundsson, þáverandi sendiherra Íslands í Moskvu, um þetta varð dr. Kristinn sposkur á svipinn að sögn Hannesar og sagði það auðveldara að fela hlustunartækin á bak við veggfóður en í vel máluðum veggjum. Þá hefðu „málarameistararnir“ kallað þau hjónin til sín til þess að mæla hljóðstyrkinn í röddum þeirra fyrir upptökutækið.
Páll Torfi Önundarson, læknir og tengdasonur Hannesar, segir í samtali við Morgunblaðið að tengdafaðir sinn hafi sagt sér þessa sömu sögu, en Páll Torfi og Kristín Hanna eiginkona hans fóru í brúðkaupsferð sína til Moskvu og gistu þá hjá sendiherranum. „Hann vissi af þessum hlerunum allan tímann, og var svolítið ánægður með þær út af sinni eigin heilsu,“ segir Páll Torfi en svo bar til árið 1969 að Hannes hneig niður í Moskvu vegna kransæðastíflu, þá 43 ára gamall. „Rússarnir björguðu þá lífi hans,“ segir Páll Torfi, en Hannes þurfti að dvelja í hálft ár á sjúkrahúsi.
Sendiráð Íslands í Moskvu var allt til lokunar þess árið 2023 í glæsilegu húsi í Moskvu við götuna Khlebnyy Pereulok, en þýða má það sem „Rúgbrauðsgötu“. Páll Torfi segir að þetta hafi verið glæsilegt hús með stórri stofu og glæsilegum herbergjum, en það var byggt árið 1815, og viss eftirsjá að því ef Ísland missir húsnæðið.
„Það var ris á þessu húsi, og einn gaflinn er áfastur við nýtt hús, og á þessu risi var einn þakgluggi,“ segir Páll Torfi og bætir við að þegar Hannes hafi eitt sinn spurt hvernig menn kæmust upp á háaloft hafi honum verið tjáð að það væri ekkert háaloft. Hins vegar heyrðu þau sendiherrahjónin oft umgang þar og þakglugginn var ýmist opinn eða lokaður, jafnvel þótt enginn í sendiráðinu hefði aðgang að honum.
Jakob Bragi Hannesson, kennari og sonur Hannesar, staðfestir þessa frásögn. „Það var þarna kvistur ofan á sendiráðinu, sem tengdist yfir í næsta hús, og foreldrar mínir sögðu mér að þau hefðu stundum heyrt hljóð í segulbandstækjum ofan af loftinu,“ segir Jakob Bragi. Hann bætir við að Sovétmennirnir hafi verið frekar kauðskir við þessar hleranir, og nefnir m.a. að eitt sinn hafi þeir sett búnað á kúplingu sendiráðsbíls, sem hafi svo dottið af þegar ökumaðurinn steig of fast á kúplinguna.
Jakob Bragi rifjar upp að eitt sinn hafi hann og bróðir hans, sem báðir voru þá á táningsaldri, ákveðið að fara í leiðangur um Moskvuborg með neðanjarðarlestinni til þess að sjá hversu langt þeir gætu komist. „Og þegar við komum upp, þá voru þar bara akrar og engi,“ segir Jakob Bragi. Hann rifjar upp að þeir bræður hafi villst nokkuð af leið, og það hafi tekið sinn tíma að finna aftur lestarstöðina til þess að fara heim, en það gekk þó að lokum.
Fyrir utan sendiráðið var þá varðskúr, og þar inni stóð alltaf lögreglumaður, sem fylgdist með hverjir væru að koma og fara frá sendiráðinu. „Og faðir minn var farinn að ókyrrast, þannig að hann ákveður að spyrja þennan varðmann hvort þeir viti hvar við bræður séum. Og hann hringir eitthvert símtal og segir: „Þetta er allt í lagi, það eru bara tíu mínútur í þá.“ Þannig að þeir vissu hvar við vorum allan tímann.“
Þessir varðskúrar eða vaktpóstar voru staðsettir vítt og breitt um Moskvuborg að sögn Páls Torfa, sem segir að Hannesi hafi þótt mikið öryggi í þessu eftirliti vegna hjartaáfallsins sem hann fékk. „Því þegar þú fórst um Moskvu, sérstaklega þegar þú fórst um eða út fyrir Moskvu, voru alls staðar svona vaktpóstar sem fylgdust með sendiráðsbílunum og í hvert skipti sem þú keyrðir fram hjá vaktpósti stóð maður í einkennisbúningi fyrir utan, og þegar þú varst farinn fram hjá og leist í baksýnisspegilinn fór hann inn og hringdi í næsta vaktpóst,“ segir Páll Torfi. Þetta endurtók sig í hvert sinn sem keyrt var fram hjá svona skúr.
Vestrænu sendiherrarnir munu hafa haft á orði að bílarnir þeirra væru merktir í þeirri röð hversu hættulegt ríki þeirra væri Sovétríkjunum. „Þannig að Bandaríkin voru á bíl númer 1, en Ísland fékk sendiherrabíl nr. 38,“ segir Páll Torfi. Þannig fylgdust Sovétmenn rækilega með ferðum sendiherranna um Moskvuborg.
„Einu sinni sprakk hjá Hannesi á milli vaktpósta, og þá liðu bara örfáar mínútur og þá keyrði lögreglubíll fram hjá honum með einkennisklædda menn. Svo liðu bara nokkrar mínútur og þá kom annar bíll með mönnum sem skiptu um dekk fyrir hann,“ segir Páll Torfi með glettni í röddinni, og segir ekki víst að bandaríski sendiherrann hefði fengið sömu þjónustu og sá íslenski.
Hannes segir einnig frá því í ævisögu sinni að skömmu áður en hann kom til Moskvu í fyrra sinn hafi erlendir sérfræðingar farið yfir norska sendiráðið og leitað þar að hlerunarbúnaði. Hafði dr. Kristinn þá spurnir af því að 17 upptökutæki hefðu fundist, og það síðasta í höfðagafli hjónarúms sendiherrans. Þegar þessi saga var borin undir norska sendiherrann staðfesti hann að hún væri rétt, fyrir utan eitt smáatriði, upptökutækin voru nefnilega 32 talsins, ekki 17.
Kom þá upp sú spurning hvort ekki ætti að gera formleg mótmæli við Sovétmenn, þar sem hleranir af þessu tagi væru bæði óþolandi og fjandsamlegar. Segir Hannes í frásögn sinni að hætt hafi verið við það af einfaldri ástæðu: hlerunarbúnaðurinn var framleiddur af Siemens í Vestur-Þýskalandi, og þótti líklegt að Sovétstjórnin myndi segja að Vestur-Þjóðverjar stæðu að baki hlerununum og vísa öllum mótmælum á bug.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.