Lögreglustöð tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi, var tilkynnt um hópslagsmál fyrir utan skemmtistað. Þrír voru handteknir í tengslum við málið.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun.
Jafnframt var tilkynnt um hópslagsmál fyrir utan skemmtistað í miðbæ Reykjarvíkur. Lögregla fór á vettvang og leysti málið á vettvangi.
Þá bárust lögreglu þrjár tilkynningar um innbrot í verslanir í miðbæ Reykjavíkur. Ekki er vitað hverjir voru þar að verki. Einnig var lögreglu tilkynnt um aðila sem var að reyna komast inn í bifreiðar og komst hann inn í eina.
Lögreglustöð þrjú, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti var tilkynnt um líkamsárás. Lögregla fór á vettvang og ræddi við aðila. Sömu lögreglustöð var einnig tilkynnt um hópasöfnun unglinga í annarlegu ástandi. Í dagbókinni segir að lögregla hafi kannað málið.
Lögreglustöð fjögur, sem sinnir verkefnum í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi, var tilkynnt um aðila sem datt af rafmagnshlaupahjóli. Lögregla fór ásamt sjúkraliði á vettvang. Sjúkraflutningamenn hlúðu að viðkomandi á vettvangi. Þá var einnig tilkynnt um mann að keyra lyftara á golfvelli, en hann fannst ekki.