Bankamenn voru eins og útspýtt hundskinn í liðinni viku þegar hlutabréfamarkaðir sveifluðust eins og jójó eftir því hvernig lá á Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Stemningin var þung í Borgartúni.
Þetta staðfestir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka sem fylgist náið með þróun mála. Hún mætti í Spursmál að þessu sinni til þess að fara yfir hina tíðindamiklu viku á alþjóðamörkuðum. Sviptinga þar varð heldur betur vart á íslenska markaðnum þar sem hundruð milljarða króna þurrkuðust út af bókum eins og hendi væri veifað.
„Maður er dálítið eins og útspýtt hundskinn eftir þessa viku því sviptingarnar eru svo ofboðslega miklar. Við sjáum til dæmis þegar verið er að reyna að leggja mat á stöðuna að Goldman Sachs sem dæmi sagði á miðvikudag að þeir ætluðu að breyta grunnspá sinni. Það væru 65% líkur á að Bandaríkin færu í efnahagssamdrátt. Svo skipti Trump um skoðun og þeir þurftu að birta nýja spá 90 mínútum seinna. Nei við erum hætt við. Grunnspáin okkar er að það verði ekki samdráttur. Það verði bara minni hagvöxtur. Þannig að maður situr bara og horfir á þetta agndofa,“ segir Erna Björg.
Kauphöllin hér heima er eins og aðrar kauphallir. Sviptingarnar á félögunum jafnvel upp í jafnvel 15% frá degi til dags.
„Já, upp og niður. Við erum búin að sjá allan skalann í þessar viku. Þetta er bara ofboðslegt að fylgjast með þessu. Svo kemur Trump og fer inn á sinn samfélagsmiðil og segir frá ósvífni annarra í garð hagkerfa heimsins og er þá að vísa til Kína. Þegar hann er sjálfur eins og þú segir er búinn að setja allt heimshagkerfið í uppnám á síðustu dögum.“
Þú ert starfandi hjá Arion banka. Ég hef heyrt að það sé mikið um veðköll á menn sem hafa verið með gíraðar stöður og annað. Þú mátt auðvitað ekki tjá þig nákvæmlega um það sem er að gerast en það hlýtur að vera dálítið sérstök stemning í mötuneytinu innan svona stofnana þegar svona er. Eru menn ekki eins og útspýtt hundskinn og með bindið út á hlið?
„Það er búin að vera dálítið þung og erfið stemning í Borgartúninu þessa vikuna. Og auðvitað er það fyrir þá sem eru sérstaklega á mörkuðum eða að stýra fjármagni því þetta eru ofboðslegar stefnur til að horfa upp á. Þær hafa að einhverju leyti verið ýktar eins og þú segir. Það hafa í einhverjum tilvikum verið veðköll og það eru þrjú félög á markaði sem hafa verið frekar dómínerandi. Það eru Actavis, Oculis og Amaroq. Þessi vaxtarfélög sem að einhverju leyti treysta á Bandaríkjamarkað svo að sínar forsendur geti ræst. Þetta eru félög sem eru vaxtarfélög, eru ekki orðin þessi stöndugu rekstrarfélög. Og þetta er búið að vera nokkuð áhugavert að fylgjast með þróuninni núna því ef við til dæmis horfum bara á íslenskan markað allan fyrri hluta vikunnar þá töldum við okkur standa hlutfallslega betur hafandi fengið á okkur 10% toll en Evrópusambandið 20% og Noregur 15%. En samt vorum við að sjá íslensku rekstrarfélögin að lækka ofboðslega mikið í hreyfingum sem áttu ekki endilega rétt á því að vera svona ofboðslega miklar.“
Fasteignafélögin munu halda áfram að innheimta leigutekjur af steinsteypunni. Það er ekki beint innistæða fyrir sviptingunum í slíkum fyrirtækjum.
„Nei og í fyrirtækjum sem sinna sérstaklega íslenskum markaði. Af því að það var enginn að teikna upp skipbrot á innlendum markaði þótt þetta hafi neikvæð áhrif á okkur öll. Þannig að fyrir fyrirtæki sem sinna fyrst og fremst innlenda markaðnum þá voru þetta frekar öfgafull viðbrögð sem við sáum. En það kann að tengjast því að það eru peningar sem þurfa að færast á milli og þá þarf einhvers staðar að selja til þess að geta greitt niður annars staðar.“
Viðtalið við Ernu Björg og Ásdísi Kristjánsdóttur, fyrrverandi forstöðumann greiningardeildar Arion banka og núverandi bæjarstjóra Kópavogs, má sjá í spilaranum hér að neðan: