Það gengur á með hríðarveðri á Austurlandi sem fikrar sig inn á Norðurland eystra og Norðurland vestra undir kvöld og síðan Vestfirði.
Þetta segir Eiríkur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en vetur konungur hefur minnt á sig um helgina og í dag eru gular viðvaranir í gildi vegna hvassviðris og hríðarveðurs á austurhelmingi landsins og síðar í dag skella þær á Norðurland og Vestfirði.
„Það er farið að draga úr veðurhæðinni á Austfjörðum en undir kvöld fer veðrið að versna á Norðurlandi og á Vestfjörðum,“ segir Eiríkur.
Vegagerðin vekur athygli á því að vegir geti orðið ófærir á þessum stöðum eftir að þjónustutíma Vegagerðarinnar lýkur í kvöld og eins fram eftir morgni. Það á ekki síst við um fjallvegi.
Eiríkur segir að á morgun lægi enn frekar fyrir austan en áfram verði snjókoma og hríðarveður á Vestfjörðum út morgundaginn sem og á Ströndum og Norðurlandi vestra. Þar mun vind lægja jafnt og þétt.
„Þetta er ekkert hamfaraveður heldur svona gult vetrarveður,“ segir hann.
Hvernig er veðurútlið í dymbilvikunni?
„Það stefnir í að verða svolítið einhæft. Það er líklegt að það leggist í norðaustan átt með snjókomu eða éljum fyrir norðan en sunnan heiða verður bjart og þurrt. Það verður strekkingsvindur og hvassviðri með köflum.“
Eiríkur segir að það verði kalt á nóttinni en í sólinni nái hitinn að komst í 7-8 stig þegar best lætur yfir daginn suðvestanlands. Hann segir að það verði ekki fyrr en á föstudaginn sem breytinga sé að vænta í veðrinu.
„Eins og þetta lítur út núna er líklegast að það komi smá hæðahryggur með hægviðri og björtu veðri um mest allt land og það kólni í norðanáttinni þar sem hún nær að draga kalt loft inn til okkar.“