Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður nálgast óðfluga og spenningur er farinn að myndast í andrúmslofti Ísafjarðarbæjar.
Einn skipuleggjenda hátíðarinnar segir mikla samheldni ríkja í bæjarfélaginu þegar kemur að því að setja hátíðina upp.
Hátíðin stendur yfir dagana 18.-19. apríl.
„Þetta blasir gríðarlega vel við. Við erum búin að fá hljóðkerfið og í rauninni einn gám af heilli tónlistarhátíð sendan til okkar,“ segir skipuleggjandinn Kristján Freyr Halldórsson í samtali við mbl.is.
Brátt hefst svo uppsetning á sviðinu í hinni svokölluðu Kampaskemmu, en rækjuvinnslan Kampi hefur lánað aðstandendum hátíðarinnar skemmuna í tæp tíu ár.
„Þetta er náttúrulega samfélagsverkefni sem við erum að horfa á,“ segir Kristján og nefnir að þó svo um 20–30 manna hópur haldi hátíðina þá sé nánast eins og hver einasti íbúi bæjarins taki þátt í undirbúningnum með einum eða öðrum hætti.
Hann nefnir til dæmis einn íbúa sem ár hvert notar kranabílinn sinn til að flytja klósettgáma fyrir hátíðargesti – ókeypis og án þess að vera beðinn um það.
Er það ekki líka bara hluti af sjarmanum við þessa hátíð, þessi samheldni?
„Jú, ég held að það sé algjörlega þannig. Þó mig langi að taka kredit fyrir það sjálfur, þá er það bara alls ekki þannig. Ég held að fólk skynji þetta – bæði gestir og tónlistarfólkið sjálft – að þetta er góður fílingur. Þetta er fólk að gera þetta af ástríðu og engu öðru.“
Kristján bendir á að ár hvert fái forsvarsmenn hátíðarinnar fyrirspurnir um hvenær miðasala hefjist – þrátt fyrir að aldrei hafi verið seldir miðar á hátíðina.
„Það er frítt á hátíðina og á bak við hana stendur stór hópur sjálfboðaliða. Enginn fær greitt og þetta er ekki hagnaðardrifinn rekstur að neinu leyti.
Fólk skynjar það – að hér sé raunverulegur fílingur að baki. Þetta er bara fólk að hafa gaman og reyna að skila einhverri skemmtun inn í samfélagið.“
Ellefu hljómsveitir og tónlistarflytjendur koma fram á hátíðinni í ár og mæta til bæjarins á skírdag og föstudaginn langa – sumir með bíl, aðrir með flugi.
Kristján segir skipuleggjendur tilbúna með nokkrar sviðsmyndir til að bregðast við aðstæðum. Í gegnum árin hafi t.d. komið fyrir að flugi hafi verið aflýst með stuttum fyrirvara og þá þurfi að bruna til Reykjavíkur til að sækja tónlistarfólkið.
„Við erum alltaf tilbúin með svona B- og C-plön.“
Ekki eru þó miklar áhyggjur um þessar mundir.
Rætt er um það í bænum að veðrið verði gott fyrir vestan yfir páskana – búist sé við sól, þó með dálítilli kuldatíð.
„Ef það verður raunin, þá erum við í algerri lukku. Það þarf vart að minna fólk á að það er enn vetur – það er alltaf kalt á Aldrei fór ég suður. Þetta er náttúrulega bara hrátt iðnaðarhúsnæði við höfnina,“ segir Kristján en tekur þó undir með blaðamanni að kuldinn verði líklega ekki áberandi þegar fólk tekur að hreyfa sig í takt við lifandi tóna.
Aðspurður segir hann stemninguna í bænum aukast gríðarlega, þó ekki eingöngu vegna hátíðarinnar. Síðustu helgi var haldið skíðagöngumótið Fossavatnsgangan og í dag hófst Skíðavikan á Ísafirði, sem stendur yfir í heila viku.
Að lokum undirstrikar Kristján hve stórt það sé fyrir bæinn að halda hátíðina, en reiknað er með að íbúafjöldi rúmlega tvöfaldist yfir hátíðarhelgina.
„Ísafjarðarbær er svona fjögur þúsund manna bæjarfélag en miðað við okkar tölur sem við erum búin að fá frá byrjun frá Vegagerðinni þá má reikna með að það séu að koma, að minnsta kosti, 4.500 manns í bæinn. Af því að það koma tvö þúsund og eitthvað bílar keyrandi norður Ísafjarðardjúp í þessari viku.“
„Það fer að verða brjáluð stemning hérna þegar líður á vikuna.“
Hægt er að sjá dagskrá hátíðarinnar í ár hér.