Tveir menn hlutu í Héraðsdómi Reykjavíkur tíu mánaða fangelsisdóma fyrir hylmingu í tengslum við stórt innbrot í Elko í september. Sjö mánuðir af refsingu mannanna eru bundnir skilorði til tveggja ára.
Ekki hefur verið gefin út ákæra fyrir sjálfan þjófnaðinn en mennirnir tveir, sem eru frá Rúmeníu, voru teknir með hluta þýfisins í bíl á Seyðisfirði á leið í Norrænu.
Af öryggislager Elko í Lindum var í innbrotinu stolið rúmum fimm milljónum króna úr peningaskáp og talsverðu magni af Samsung- og iPhone-farsímum.
Í fórum sínum höfðu mennirnir 129 farsíma og rúmlega milljón krónur í reiðufé sem og 4.800 evrur sem jafngildir rúmum 700 þúsund íslenskum krónum.
Mennirnir sögðu fyrir dómi að þeir hefðu verið beittir þvingunum til að taka við þýfinu og koma því úr landi. Sögðu þeir frá líflátshótunum sem þeir höfðu fengið. Dómurinn taldi engin gögn sanna þá frásögn og sagði þá hafa gripið til frásagnarinnar til að gera sinn hlut minni en efni standa til.
Þrír karlmenn og ein kona voru í haldi vegna málsins en var sleppt í byrjun október. Þau eru öll af erlendu bergi brotin og ekki með íslenskan ríkisborgararétt. Alls voru sjö handtekin í tengslum við þjófnaðinn en þremur var sleppt eftir yfirheyrslur.