Við eftirlit lögreglunnar á Vestfjörðum í gærkvöld vaknaði grunur um mögulega dvöl fólks í íbúðarhúsum í eldri byggð Súðavíkur, þar sem dvöl er óheimil frá 1. nóvember til og með 30.apríl á ári hverju vegna snjóflóðahættu.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum á Facebook. Þar segir að lögreglan hafi kannað málið og fengið það staðfest að fólk héldi til í nokkrum húsanna, sumt með vitneskju um kvöð þá sem bannið byggi á.
„Slíkt verður að teljast ansi bagalegt, ekki síst þar sem ekki er alltaf öruggt að tíðin sé jafn góð og hún hefur verið síðustu vikur. Minnt er á að slíkar kvaðir eru einnig til staðar víðar á Vestfjörðum en þær eru einmitt settar í þeim tilgangi að tryggja öryggi og auðvelda viðbragð almannavarna,“ segir í tilkynningunni.