Agli Þór Jónssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa og formanni Varðar, sem lést þann 20. desember 2024, var veitt gullmerki Heimdallar á árshátíð ungra sjálfstæðismanna á föstudag.
Í ræðu frá Júlíusi Viggó Ólafssyni, formanni Heimdallar, kom fram að Egill hafi verið fyrirmynd annarra í starfi.
„Hann gaf sig allan í starf sitt, fyrir sinni hugsjón og bættu samfélagi. Þeir sem þekktu hann lýsa honum sem góðum leiðtoga, vini, hróki alls fagnaðar á öllum mannamótum og manni allra, sem gat talað við alla, mótherja jafnt sem samherja. Við getum öll litið til hans sem dæmi um það hvernig við getum orðið betri í okkar þátttöku, starfi og þjónustu í félagsstarfi,“ segir m.a. í ræðu Júlíusar.