Flugfélagið Play hefur hætt við ferðir til fjögurra áfangastaða í sumar vegna breytinga á flugflota félagsins. Ekki verður flogið til Pula í Króatíu, Düsseldorf og Hamborgar í Þýskalandi og eyjarinnar Madeira, en flug til Madeira hefst aftur í vetur.
Þetta segir Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, í samtali við mbl.is.
Hann segir að allir þeir farþegar sem hafi átt bókaðar ferðir til þessara áfangastaða hafi þegar fengið skilaboð frá flugfélaginu um að fluginu hafi verið aflýst. Hafi þeir ekki fengið slík skilaboð sé rétt að kanna hvort gefnar hafi verið upp réttar upplýsingar við kaup á fluginu.
Sérstaklega sé vert að kanna hvort rétt tölvupóstfang og símanúmer hafi verið skráð við bókun flugsins. Hafi ferð til þessara áfangastaða verið bókuð í gegnum ferðaskrifstofu er það ferðaskrifstofan sem hefur samband.
Birgir útskýrir að breytingarnar komi til vegna þess að flugfélagið sé að leigja út fjórar flugvélar í langtímaleigu til loka ársins 2027 en að félagið taki inn eina vél til leigu yfir sumarið og eru þá með sjö vélar í flugflotanum í stað tíu.
„Þetta verður til þess að við þurfum að gera breytingar á leiðakerfinu fyrir sumarið,“ segir Birgir og tekur fram að breytingarnar séu í takti við nýtt viðskiptalíkan sem kynnt var í október.
Enn er þó hægt að fljúga til Króatíu, Portúgal og Þýskalands í sumar með Play en flugfélagið býður upp á flugferðir til annarra áfangastaða í þeim löndum.
Þá mun flug til Valencia á Spáni hefjast seinna en áætlað var og verður aðeins flogið yfir háannatímann, frá miðjum júlí til loka ágúst.
Spurður hvort hafið verði aftur flug til einhverra þessara áfangastaða eftir sumarið segir Birgir að flug til Madeira hefjist aftur næsta vetur en að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort haldið verði áfram flugi til hinna áfangastaðanna, það sé þó alltaf nokkuð sem sé í skoðun.
„Við erum að leggja gríðarlega áherslu á flug frá Íslandi til sólarlanda. Við verðum með eina öflugustu sólarlandaáætlun sem sést hefur á Íslandi til allra þessara vinsælustu áfangastaða sem Íslendingar sækjast í,“ segir Birgir.