Hætta við ferðir til fjögurra áfangastaða

Breytingarnar eru tilkomnar vegna breytinga á flugflota félagsins.
Breytingarnar eru tilkomnar vegna breytinga á flugflota félagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flug­fé­lagið Play hef­ur hætt við ferðir til fjög­urra áfangastaða í sum­ar vegna breyt­inga á flug­flota fé­lags­ins. Ekki verður flogið til Pula í Króa­tíu, Düs­seldorf og Ham­borg­ar í Þýskalandi og eyj­ar­inn­ar Madeira, en flug til Madeira hefst aft­ur í vet­ur. 

Þetta seg­ir Birg­ir Ol­geirs­son, upp­lýs­inga­full­trúi Play, í sam­tali við mbl.is. 

Hann seg­ir að all­ir þeir farþegar sem hafi átt bókaðar ferðir til þess­ara áfangastaða hafi þegar fengið skila­boð frá flug­fé­lag­inu um að flug­inu hafi verið af­lýst. Hafi þeir ekki fengið slík skila­boð sé rétt að kanna hvort gefn­ar hafi verið upp rétt­ar upp­lýs­ing­ar við kaup á flug­inu.

Sér­stak­lega sé vert að kanna hvort rétt tölvu­póst­fang og síma­núm­er hafi verið skráð við bók­un flugs­ins. Hafi ferð til þess­ara áfangastaða verið bókuð í gegn­um ferðaskrif­stofu er það ferðaskrif­stof­an sem hef­ur sam­band. 

Í takti við nýtt viðskiptalík­an

Birg­ir út­skýr­ir að breyt­ing­arn­ar komi til vegna þess að flug­fé­lagið sé að leigja út fjór­ar flug­vél­ar í lang­tíma­leigu til loka árs­ins 2027 en að fé­lagið taki inn eina vél til leigu yfir sum­arið og eru þá með sjö vél­ar í flug­flot­an­um í stað tíu. 

„Þetta verður til þess að við þurf­um að gera breyt­ing­ar á leiðakerf­inu fyr­ir sum­arið,“ seg­ir Birg­ir og tek­ur fram að breyt­ing­arn­ar séu í takti við nýtt viðskiptalík­an sem kynnt var í októ­ber. 

Enn er þó hægt að fljúga til Króa­tíu, Portúgal og Þýska­lands í sum­ar með Play en flug­fé­lagið býður upp á flug­ferðir til annarra áfangastaða í þeim lönd­um.

Þá mun flug til Valencia á Spáni hefjast seinna en áætlað var og verður aðeins flogið yfir há­anna­tím­ann, frá miðjum júlí til loka ág­úst.

Áhersla á sól­ar­lönd

Spurður hvort hafið verði aft­ur flug til ein­hverra þess­ara áfangastaða eft­ir sum­arið seg­ir Birg­ir að flug til Madeira hefj­ist aft­ur næsta vet­ur en að ekki hafi verið tek­in ákvörðun um hvort haldið verði áfram flugi til hinna áfangastaðanna, það sé þó alltaf nokkuð sem sé í skoðun. 

„Við erum að leggja gríðarlega áherslu á flug frá Íslandi til sól­ar­landa. Við verðum með eina öfl­ug­ustu sól­ar­landa­áætl­un sem sést hef­ur á Íslandi til allra þess­ara vin­sæl­ustu áfangastaða sem Íslend­ing­ar sækj­ast í,“ seg­ir Birg­ir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert