Íslenskir feðgar fóru í útsýnisflug með þyrlunni sem fórst á fimmtudag nokkrum klukkustundum áður en hún hrapaði í Hudson-ána á milli New York og New Jersey.
New York Times fjallar um nálægðina við dauðann og þá tilviljun sem olli því að Escobar-fjölskyldan frá Spáni lést en ekki aðrir farþegar sem fóru í útsýnisflug með sömu þyrlu fyrr á fimmtudag.
Rafn Herlufsen dvaldi í New York ásamt syni sínum í vikunni en ferðin var farin í tilefni fermingar drengsins. Þeir sáu leik New York Knicks og Boston Celtics í Madison Square Garden á þriðjudag og fóru í útsýnisflugið á fimmtudag.
Bandaríski miðillinn fjallar um íslensku feðgana, frönsk hjón og ungan son þeirra og að lokum Escobar-fjölskylduna spænsku sem lést í voveiflega slysinu. Miðillinn gerir tilraun til að varpa ljósi á hversu stutt sé á milli feigs og ófeigs og þess að tilviljanir ráða miklu í þessu lífi.
Fjölskyldurnar þrjár mættu allar á tilskildum tíma á þyrlupallinn nærri South Street-bryggjunni þar sem þær hlýddu á öryggisleiðbeiningar New York Helicopter-þyrluferðafyrirtækisins og sátu fyrir á myndum við þyrluna að gerðinni Bell 206 LongRanger með einkennisstafina N216MH.
Eins og áhrifarík skrifin í New York Times segja þá fórst þyrlan í Hudson-ánni áður en dagurinn varð allur og ein fjölskyldnanna beið bana ásamt þyrluflugmanninum.
„Hinar fjölskyldurnar tvær ferðuðust í hægðum sínum áfram um borgina með óþægilega tilfinningu en reyndu að setja upp bros og gera tilraun til að ná utan um sína eigin gæfu en á sama tíma nálægð við hræðileg örlög,“ sem segir í greininni.
Rafn sagði í samtali við miðilinn að dagskrá feðganna í New York hafi verið þétt. Þyrluflugið var svo á fimmtudag en nokkrum tímum síðar hafi sími hans hreinlega logað.
Sagði hann drengnum hafa verið mjög brugðið við tíðindin. „Að vera svona nærri dauðanum er erfitt að ná utan um fyrir 14 ára einstakling,“ sagði Rafn sem sagðist vonast til að þeir feðgar gætu lokið ferð sinni til New York á jákvæðum nótum.
„Við eigum einn dag eftir,“ sagði hann á fimmtudag. „Ég ætla virkilega að reyna að láta þetta ekki skyggja á þessa einstöku ævintýraferð okkar feðga.“