Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar var í broddi fylkingar er lúðrasveit marseraði í gegnum salinn á landsfundargleði Samfylkingarinnar, við gríðarlegan fögnuð viðstaddra.
Kristrún gekk með bassatrommu framan á sér og sló taktinn við slagarann „Viltu með mér vaka“.
Á eftir henni marseruðu þingmenn flokksins þær Dagbjört Hákonardóttir sem rifjaði upp gamla þverflaututakta og Ása Berglind Hjálmarsdóttir sem lék á trompet, ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar.
Samkvæmt heimildum mbl.is var um frumraun Kristrúnar á sviði bumbusláttar að ræða en hún leysti verkið vel úr hendi, þrátt fyrir að enginn tími hefði gefist til æfinga.
Dagbjört lék á árum áður á þverflautu en Ása Berglind spilar á trompet með Lúðrasveit Þorlákshafnar.
„Ég átti satt að segja lítinn þátt í þessari snilld, Ása Berglind Hjálmarsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar er hugmyndasmiðurinn á bak við atriðið. Hún hefur spilað á trompet með Lúðrasveit Þorlákshafnar síðan hún var unglingur og kom þessu öllu í kring, ásamt góðum hópi. Ása marseraði svo auðvitað með sinni lúðrasveit og þarna var líka annar þingmaður okkar, Dagbjört Hákonardóttir, sem rifjaði upp gamla takta á þverflautu. Þetta var hluti af skemmtiatriði þingflokks á landsfundargleði eftir frábæran landsfund um helgina,“ segir Kristrún við mbl.is um uppátækið.
Formanninum er greinilega margt til lista lagt og ekki aðeins á sviði stjórnmálanna. Þjóðinni er enn í fersku minni er Kristrún greip í harmónikuna í kosningabaráttunni árið 2021 og í baráttunni á síðasta ári brá hún sér í gervi prinsessunnar Elsu úr Frosti og tók lagið fyrir viðstadda.