This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Með nýjum Bókaklúbbi Spursmála er markmiðið að fá fólk á öllum aldri til þess að kynna sér fróðlegar bækur sem dýpkað geta skilning okkar á samfélaginu og þeim atburðum sem móta það á hverjum tíma.
Allir eiga sér sögu af samfylgd við bækur. Það er óhjákvæmilegt í landi þar sem mikið er lagt upp úr lestri og bókaútgáfu. Það segir sína sögu að á nýafstöðnum bókamarkaði Félags íslenskra bókaútgefenda hafi yfir 100 þúsund bækur selst. Fréttir um dauða bókarinnar eru stórlega ýktar, svo vitnað sé með óbeinum hætti til Oscars Wilde.
Sérstaklega er ánægjulegt að fylgast með því hversu mikil gróskan er í barnabókaútgáfu hér á landi. Þær eru enda fyrsti og mikilvægasti snertiflöturinn við framtíðarlesendur. Lengi býr að fyrstu gerð, er sagt og á það fyllilega við þegar kemur að bóklestri.
Hér má skrá sig í Bókaklúbb Spursmála.
Jafnt og þétt breytist svo smekkur fólks á bókum og getan til þess að kljást við lengri og flóknari texta eykst í hlutfalli við ástundun. Þess vegna skiptir máli að lesa og lesa mikið.
Umsjónarmaður Spursmála er Stefán Einar Stefánsson og hann heldur einnig utan um Bókaklúbbinn sem kenndur er við þáttinn.
Hann hefur tínt til nokkrar bækur sem standa hjarta hans nærri en stutta yfirferð hans um þær bækur má sjá í spilaranum hér að ofan.
Það eru bækur á borð við:
Ævintýri Dagfinns dýralæknis sem hefur að geyma frásagnir af lækninum sem lærði dýramál. Hugh Lofting er höfundur þessarar dásamlegu bókar sem farið hefur sigurför um heiminn og hefur um áratugaskeið verið lesin fyrir börn á öllum aldri.
Smásögur skipa merkan sess í bókmenningu Íslendinga. Það á jafnt við um þýdd verk og frumsamin á íslensku. Meðal þeirra smásagna sem Stefán nefnir til sögunnar er Ferðin sem aldrei var farin. Hún er höfundarverk Sigurðar Nordal og hefur orðið mörgum Íslendingnum innblástur á umliðnum áratugum.
Íslensk skáldverk í lengra formi renna út eins og heitar lummur fyrir jólin ár hvert. Bók sem haft hefur áhrif á Stefán Einar er Vetrarferðin eftir Ólaf Gunnarsson. Hún fjallar um unga konu sem lendir í miklum erfiðleikum á tímum síðari heimstyrjaldarinnar. Ólafur hefur sjálfur sagt að bókin sé hans eigin útgáfa af hinu klassíska verki, Jobsbók, sem varðveitt er í Gamla testamentinu.
Og allir Íslendingar kynnast Íslendingasögunum með einum eða öðrum hætti. Í uppáhaldi hjá Stefáni er Fóstbræðrasaga sem segir af köppunum Þorgeiri og Þormóði sem fara mikinn og láta engan eiga neitt inni hjá sér. Þeir sem kynnast Fóstbræðrasögu verða einnig að smjatta á Gerplu Halldórs Laxness. Þar fer hans eigin útgáfa, skopstæling af sögunni fornu.
Stefán nefnir einnig fróðleik af erlendum vettvangi. Grípur úr hillunni bók eftir kanadíska blaðamanninn Mark Kurlansky. Fyrir llanga löngu sendi hann frá sér bókina Cod: A Biography of the Fish that changed the world. Viðfangsefnið er mjög tengt Íslandi og sögu Íslendinga. Enda ræðir Mark við Íslendinga og kemur oftsinnis við á Íslandsmiðum í frásögn inni. Bókin var þýdd á íslensku á sínum tíma en hér ræðir um hinn upprunalega texta.
Og af þjóðlegum fróðleik. Stefán Einar nefnir bókina Íslenskir þjóðhættir sem presturinn og fræðimaðurinn Jónas Jónasson frá Hrafnagili skrifaði en kom út að honum látnum. Þar er að finna gríðarlegan fróðleik um lifnaðarhætti Íslendinga á fyrri öldum. Fæst af því sem Íslendingar búa við í dag á nokkuð skylt við þann heim sem þar er fjallað um.
Að lokum nefnir Stefán Einar ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson. Hann segir ævisöguna ekki þá bestu sem hann hafi lesið, langt í frá. En rétt sé að taka hana til í ljósi þess að hún fjallar um merkasta Íslendinginn sem uppi hefur verið - að hans mati. Snorri mótaði bókmenningu Íslendinga með afgerandi hætti og sennilega með djúpstæðari hætti en nokkur annar, fyrr og síðar. Hann skipar því heiðurssess þegar rætt er um bókaklúbba og áhuga á lestri.