Sigríður Á. Andersen þingmaður Miðflokksins telur að óljós áform ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu (ESB) hafi valdið óþarfa misskilningi um stöðu Íslands gagnvart ESB og hugsanlegri aðildarumsókn.
Þannig hafi komið á daginn á þingfundaviku Evrópuráðsins að Aaja Chemnitz Larsen, formaður grænlensku nefndarinnar á danska þinginu, taldi að Ísland hefði tekið ákvörðun um aðildarumsókn. Enginn andæfði því fyrr en Sigríður leiðrétti misskilninginn, líkt og hún lýsti í félagsmiðlafærslu.
„Það kom mér á óvart að heyra manneskju, sem ætla má að fylgist vel með, fullyrða að ákvörðun hefði verið tekin um aðild Íslands að ESB,“ segir Sigríður í samtali við Morgunblaðið um þessa uppákomu.
„Þótt þingmaðurinn hafi viðurkennt að um misskilning hafi verið að ræða af sinni hálfu þá óttast ég að hann stafi af „orðinu á götunni“ í heimi norrænna stjórnmálamanna,“ bætir hún við.
Björn Bjarnason, fv. ráðherra og utanríkismálasérfræðingur, leggur orð í belg um þetta og segir að stjórnvöld geri ekkert í að leiðrétta þá almennu og viðteknu norrænu túlkun á stjórnarsáttmálanum „að við séum á leið í ESB“. Hann segir íslenska ráðherra hins vegar kjósa að vera á gráu svæði um þetta. „Þetta er bæði óheiðarlegt inn á við og gagnvart öðrum þjóðum.“
Sigríður óttast að einhverjir stjórnarliðar geri sér það að leik að grugga þetta vatn og bendir t.d. á viðtal við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í spænska dagblaðinu El País í fyrri viku.
„Þar fullyrti ráðherra að lítið vantaði upp á til að ryðja burt hindrunum í vegi ESB-aðildar. Þessu lýsti hún í samhengi við aðild Íslands að NATO og í viðtali sem að öllu öðru leyti laut að öryggis- og varnarmálum. Það sjá allir Íslendingar að þetta viðtal gefur ranga mynd af stöðunni.“
Sigríður bendir á að ummæli utanríkisráðherra stangist einnig á við afstöðu Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, eins og hún hafi birst á landsfundi Samfylkingarinnar:
„Forsætisráðherra varaði eindregið við því að hræða þjóðina með því að setja ESB-aðild í samhengi við öryggis- og varnarmál,“ segir Sigríður.
„Ráðherrar eru augljóslega ekki samstiga í ESB-ákefðinni, og látum það vera. Það er hins vegar óboðlegt ef því er haldið fram erlendis, gagnvart t.d. hrekklausum erlendum stjórnmálamönnum, að þessir hlutir séu allt öðruvísi en þeir eru.“
Hún telur að þar þurfi afstaða Íslands að koma skýrt fram og utanríkisráðherra að lýsa stöðunni og utanríkisstefnu Íslands eins og hún sé, ekki eins og hún vildi að hún væri.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.