Nemendur við Kvikmyndaskóla Íslands hafa hafnað boði mennta- og barnamálaráðuneytisins um að ljúka námi sínu við Tækniskólann í kjölfar fundar með stjórnendum skólans.
Fulltrúar nemenda skólans sátu í dag fund með stjórnendum Tækniskólans þar sem kynntar voru tillögur um hvernig ljúka megi námi Kvikmyndaskólans við Tækniskólann.
Í tilkynningu sem nemendur sendu frá sér í kjölfarið segir að tillögurnar hafi verið óljósar, illa ígrundaðar og að þær hafi ekki uppfyllt eðlilegar kröfur nemenda til náms sem þeir hafa vanist og greitt fyrir.
„Því sjáum við okkur ekki annað fært en að hafna þessum umleitunum. Nemendur Kvikmyndaskóla Íslands þakka þó fulltrúum hins frábæra Tækniskóla fyrir þeirra viðleitni,“ segir í tilkynningunni.
Kalla nemendurnir eftir því að Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, ræði við nemendurna á „jafningagrundvelli“ til þess að finna viðunandi lausn í málinu en hann lagði til að nemendurnir myndu klára nám sitt við Tækniskólann.