Nýjar sprungur hafa komið í ljós í móbergsstapanum Valahnúk við Reykjanestá.
Lögreglan á Suðurnesjum vekur athygli á þessu í tilkynningu og varar við aðstæðum þar. Segir í tilkynningunni að sérfræðingar muni meta aðstæður og að frekari upplýsingar verði veittar síðar.
Sprungur eru þekkt vandamál við Valahnúk en viðbragðsaðilar hafa varað við þeim frá árinu 2016. Sífellt molnar úr brúnum Valahnúks og hefur gert í áratugi.
Varúðarskilti er við upphaf göngustígs á hnúkinn og að auki er stígurinn lokaður með girðingu.
Greint var frá því á mbl.is fyrr í dag að ný hola hefði myndast við Brúna milli heimsálfa. Lögreglan varar einnig við jarðsigi eða holumyndun í nágrenni brúarinnar.
„Þær geta verið torfærar og hugsanlega erfiðar að greina, sérstaklega í slæmu skyggni. Ferðamönnum er því bent á að fara með gát og halda sig á merktum gönguleiðum á svæðinu.“