Bandaríska dagblaðið New York Times skrifar ítarleg eftirmæli um Friðrik Ólafsson stórmeistara heitinn og teflir því fram í inngangi greinarinnar að Friðrik hafi lagt fjóra heimsmeistara að velli við borðið köflótta, þar á meðal sjálfan Bobby Fischer sem átti eftirminnilegt einvígi á Íslandi við hinn sovéska Boris Spasskí sumarið 1972.
„Sigurganga Friðriks á toppinn í skákinni var óvænt, Ísland var ekki þekkt skákvígi á þessum tíma. En á níunda áratugnum, að miklu leyti í krafti fordæmis hans, hafði landið á að skipa fleiri stórmeisturum en nokkurt annað land miðað við höfðatölu,“ skrifar blaðamaður NYT.
Rifjar blaðið enn fremur upp frásögn Friðriks sjálfs í viðtali árið 2014 af því þegar hann fylgdist með föður sínum tefla.
„Ég man að ég sagði að mér þætti hann ekki tefla sérstaklega vel,“ hefur NYT eftir Friðrik úr viðtalinu, en hann var sjö eða átta ára gamall þegar atburðarásin sem hér er lýst átti sér stað.
Svaraði faðir hans, Ólafur Friðriksson skrifstofumaður, því þá til að teldi sonurinn sig betri skákmann skyldi hann taka sæti hans, sem Friðrik gerði og hafði sigur gegn andstæðingnum, sem var ættingi þeirra feðga.
Fer NYT svo yfir feril Friðriks, meðal annars þegar hann deildi fyrsta sætinu á Norðurlandameistaramótinu árið 1953 með svissnesk-sovéska meistaranum Viktori Kortsnoj, sem talinn var einn öflugasti skákmaður 20. aldarinnar.
Þá greinir blaðið frá því að laganám hafi dregið huga Friðriks frá taflborðinu, hann hafi lokið embættisprófi í lögum og hafið störf í dómsmálaráðuneytinu, en Friðrik var enn fremur um árabil skrifstofustjóri Alþingis.
Stórblaðið bandaríska fer í lokin yfir helstu sigra Friðriks, meðal annars tvo er hann hafði gegn Fischer auk þess sem hann lagði hinn armensk-sovéska heimsmeistara Tigran Petrosian áður.
Klykkir New York Times út með því að Friðrik hafi orðið eini sitjandi forseti Alþjóðaskáksambandsins til að sigra ríkjandi heimsmeistara á opinberu móti þegar hann fór með sigurorð af hólmi í skák sinni við hinn sovéska Anatólí Karpov, sem blaðið segir hafa verið nær ósigrandi á þeim tíma.