Nýr mennta- og barnamálaráðherra segir ekki réttlátt að aðeins sé horft til einkunna þegar nemendur eru valdir í framhaldsskóla. Hann ætlar að breyta lögunum og leggja áherslu á að skólar megi velja inn nemendur með síðri einkunnir fram yfir þá sem eru með betri einkunnir.
Nemendur búi yfir alls konar hæfileikum sem ekki séu metnir á einkunnaspjöldum.
Hann boðar breytingar á lögum sem munu heimila framhaldsskólum að horfa til annarra þátta en námsárangurs við innritun nemenda.
Vísar hann til og fullyrðir að ákall sé meðal nemenda um að þeir hafi val um fleiri skóla þó að þeir séu ekki með toppeinkunnnir.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðuð stórsókn í menntamálum. Á sama tíma hyggst hún skera niður um 1,5 milljarð króna í málaflokknum á næstu fimm árum.
„Niðurskurðurinn er hagræðing, við erum að reyna að hagræða og fara vel með skattfé,“ segir ráðherrann Guðmundur Ingi Kristinsson í samtali við mbl.is.
„Við vitum að það er stundum verið að vinna kannski á þremur fjórum stöðum að hlutum sem væri hægt að gera á einum stað – að allir séu ekki að gera það sama og vita ekki einu sinni hver af öðrum. Við erum að hagræða en við erum ekki að skera niður og við munum ekki skera niður.“
Í hverju felst þessi hagræðing?
„Til dæmis að finna hvar við erum að vinna sama hlutinn á mörgum stöðum – að það séu margir menn að vinna nákvæmlega sama hlutinn, en væri hægt að sameina innan ákveðins svæðis. Einn væri með yfirstjórnina og væri að gera hlutinn en ekki fjórir, fimm, sex að vinna sama hlutinn.“
Hann segir ríkisstjórnina „skoða allt“ í þessum efnum.
„Okkur ber skylda til að átta okkur á því hvernig er verið að fara með skattfé, almannafé. Við vitum oft að kerfið staðnar og það verður bara vani og við erum að reyna að brjóta það upp.“
Aðspurður útilokar Guðmundur Ingi ekki að gera aðra atlögu að því að sameina framhaldsskóla.
„Þetta verður skoðað allt, ég mun skoða þetta allt. Ég er auðvitað að setja mín fingraför á þetta og ég mun skoða alla þessa hluti en eins og ég segi, ég hef haft þrjár vikur og hef ekki náð að komast í gegnum allt, þetta er svo víðfeðmt.“
Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, tjáði mbl.is fyrir helgi að það stefndi í óefni í haust hvað innritun nemenda í framhaldsskóla varðar. Árgangurinn sem væri nú að útskrifast úr 10. bekk væri sá fjölmennasti í sögunni.
Í fjárlögum fylgdi þó ekki nægt fjármagn til að taka við öllum nemendunum og því væri fyrirséð að skólinn þyrfti að hafna mörgum nemendum að óbreyttu.
„Það stendur ekki til að skera niður og það verður ekki lokað deildum,“ segir ráðherra spurður út í ummæli Ársæls.
Nú er að útskrifast mjög stór árgangur af nemendum, þyrfti ekki að styðja aukalega við framhaldsskólana til að taka á móti þessum fjölda nemenda?
„Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er búin að segja það að ef það kemur upp sú staða að einhvers staðar vanti fé, þá verður það tekið úr varasjóði vegna þess að ef það kemur upp sá neyð – það getur verið af neyðarástæðum vegna þess að við erum með svo ofboðslega stóran árgang, þá verður bara tekið á því í haust.“
Guðmundur Ingi hefur lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á innritun nemenda í framhaldsskóla, eins og áður sagði.
Er meðal annars lagt til að skýra heimild skólanna til að taka inn nemendur á öðrum forsendum en námsárangri, til að stuðla að fjölbreytni í nemendahópum.
Í frumvarpinu segir að mikilvægt sé að jafna tækifæri nemenda í innritunarferlinu og að allir framhaldsskólar axli ábyrgð á fjölbreyttum nemendahópi.
„Það hefur verið lenska að horfa bara á einkunnir og ákveðnir skólar hafa bara valið nemendur út frá einkunnum sem getur ekki verið alltaf réttlátt. Við verðum að skoða þetta út frá miklu heildstæðari mynd. Það segir okkur ekkert í sjálfu sér að þó einhver sé með 10 í öllu að hann sé betri en sá sem sé með 9 og 8, og að hann eigi að fá forgang,“ segir Guðmundur.
„Við þurfum að skoða stöðu fólks. Það er svo misjafnt hvernig fólk er statt eftir nám,“ nær hann að bæta við, áður en gripið er fram í viðtalið.
„Fólk hefur líka aðra hæfileika,“ segir Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi Flokks fólksins, sem fram að þessu hefur setið og fylgst með blaðamanni ræða við ráðherra.
„Alls konar hæfileika,“ segir ráðherrann og tekur undir orð upplýsingafulltrúans.
„Þú getur verið frábær á einu sviði þó þú sért ekki góður á öðru sviði. Það er ekki þar með að það ætti að útiloka þig að fara í ákveðinn skóla, bara af því að þú ert ekki alveg með toppeinkunn en þú ert kannski frábær á mörgum öðrum sviðum.“
Finnst þér ósanngjarnt hvernig framhaldsskólar velja nemendur í dag?
„Já, sumir gera það bara út frá einkunninni. Einkunnin segir ekki alla þessa hluti.“
Heimir Már tjáir nú blaðamanni og ráðherra að viðtalið sé farið að styttast í annan endann, þar sem ráðherra þurfi að ræða við fleiri fjölmiðla og fara á fund.
Er ákall eftir þessum breytingum innan framhaldsskólanna?
„Já, ég held að það sé alltaf ákall um það að krakkarnir hafi meira val og þó þú hafir ekki toppeinkunnir að þú hafir eitthvað val um að fara í einhvern skóla,“ segir ráðherra.
Því næst víkur blaðamaður sér að spurningum um Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, sem hefur í tuttugu vikur beðið þess að fá endurnýjað leyfi sem einkarekinn skóli frá mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Nú síðast var erindið ítrekað fyrir átta vikum.
Guðbrandur Einarsson stjórnarþingmaður vakti athygli á þessu í pontu Alþingis. Benti hann á að ekki væri verið að biðja um fjármagn heldur einfaldlega heimild til þess að fá að starfa áfram.
„Maður veltir fyrir sér: Hvað er verið að gera þarna þegar við erum með sjálfstæða menntastofnun sem er að bæta við menntunarstig á Suðurnesjum, ef það á bara að sitja á stólnum og segja nei?“ sagði þingmaðurinn.
Guðmundur Ingi segir það mál til skoðunar hjá ráðuneytinu.
„Það er fleira þarna undir, það er fjallaleiðsögunám. Það er ýmislegt sem verið er að skoða. Það þarf að samræma þetta og ganga þannig frá þessu að þessi nám sem eru hjá einkaaðilum – að þau séu gild, að þau skipti máli.
Við erum með fullt af skólum sem eru að gefa út námskeið og svo vilja krakkarnir fá þau metin og þá þurfum við að hafa þetta þannig að þau séu hæf, að þau séu virkilega að gefa réttar einingar fyrir námið.“
Heimir Már stöðvar nú viðtalið.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.