Skíðavertíðinni er lokið í Bláfjöllum. Þetta kemur fram í tilkynningu á samfélagsmiðlum skíðasvæðisins.
Snjór sem vonir stóðu til um að myndi falla um helgina gerði það ekki og allar skíðaleiðir eru í sundur á einum eða fleiri stöðum ásamt lyftusporum eftir hlýindi undanfarið.
„Það er því ljóst að páskarnir eru ekki inni í ár og því er þetta niðurstaðan. Þetta var veturinn sem eiginlega aldrei kom,“ segir í tilkynningunni.
Opnunardagar voru 36 í vetur en þrátt fyrir fáa opnunardaga var um að ræða fjórða aðsóknarbesta veturinn frá upphafi en samkvæmt hliðatalningu komu 78.166 gestir í lyftur og 2.079 á skíðagöngusvæði.
Þá segir að snjóframleiðslan sé annað árið í röð að sanna gildi sitt en fyrstu 12-15 dagarnir hafi verið í boði snjóframleiðslu.