„Fólki er brugðið og tekur þetta mjög nærri sér. Þetta er samfélag þar sem allir þekkja alla og þetta snertir mjög marga,“ segir Þorkell V. Þorsteinsson, settur skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra á Sauðárkróki, í samtali við mbl.is.
Boðið hefur verið til samverustundar í skólanum á morgun vegna alvarlegs umferðarslyss sem átti sér stað í nágrenni Hofsóss á föstudaginn þar sem fjórir ungir piltar slösuðust.
„Það er mikill samhugur og lögregla, Rauði Krossinn og Barnavernd hafa staðið sig frábærlega við að sinna unglingunum undanfarna daga, hafa unnið mjög gott starf.“
„Samverustundin verður á morgun, hugmyndin er að halda utan um þá sem vilja og þurfa á að halda, og ræða málin. Það er ekkert skólahald hjá okkur núna þannig að það er erfiðara að ná til unglinganna en annars væri,“ segir Þorkell og lýsir þakklæti fyrir gott starf lögreglunnar, Rauða Krossins og Barnaverndar, sem sinnt hafa þeim unglingum sem komu að slysinu á föstudagskvöldið. Þau hafi komið vandlega að málinu og fylgt unglingunum eftir.
Þá segir hann skólann eiga von á því að fjöldi fólks komi á samverustundina á morgun til að spjalla og styrkja hvert annað.
Spurður út í fyrirkomulagið segir hann fulltrúa frá Barnavernd, félagsþjónustunni og Heilbrigðisstofnun Norðurlands verða á staðnum ásamt presti og fulltrúa lögregluyfirvalda.
„Starfsmenn frá skólanum hjá okkur verða þarna til staðar og einnig stendur til að fá sjúkraflutningamenn til að koma og ræða hvernig aðkoma getur verið að svona slysum,“ segir Þorkell. Ætlunin sé að spila viðburðinn af fingrum fram, innan ákveðins ramma, eftir því hverju fólk leitar að og hverju það þarf á að halda.
„En þarna verða aðilar til að veita aðstoð við þá sem þurfa á því að halda.“