Tillaga um þéttingu byggðar við Suðurhóla í Efra-Breiðholti var kynnt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í síðustu viku.
Í framlögðum gögnum Studio Bua sem kynnt voru ráðinu kemur fram að umrætt svæði nái yfir verslunarmiðstöðina Hólagarð ásamt bílastæðalóð, leikskólana Suðurborg og Hólaborg ásamt óbyggðu svæði milli leikskólalóðanna og íbúðablokkanna við Suðurhóla 35.
Í tillögunni er gerð ítarleg grein fyrir byggingu tveggja hæða húsa á óbyggða svæðinu en engar tillögur að öðrum húsagerðum, þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir allt að fimm hæða byggingum á reitnum. Ekki er sýnt hvað á að byggja á leikskólalóðunum, bílastæðalóðinni og verslunarhúsalóðunum. Ekki kemur heldur fram hvað margar íbúðir eru áætlaðar á reitnum og ekki hvað reiturinn er stór.
Í greinargerð með tillögu Studio Bua kemur fram að svæðið sé ekki hluti af hverfisskipulagi og því sé eldra skipulag enn í gildi.
„Gera þarf sérstakt deiliskipulag fyrir svæðið. Eftir að uppbyggingu svæðisins er lokið skv. nýju deiliskipulagi er gert ráð fyrir að skipulagið verði fellt inn í hverfisskipulag,“ segir jafnframt í greinargerðinni.
Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi Viðreisnar og formaður íbúasamtakanna Betra Breiðholts, bókaði á fundinum að það væri gaman að sjá fyrstu drög að uppbyggingu á svæði sem ekki hefði verið hverfinu til sóma síðastliðin ár. „Aukið líf í nágrenni leikskólans kemur vonandi í veg fyrir þá neikvæðu aðsókn sem hefur verið að svæðinu eftir lokun.
Í Hólahverfi er ekki mikið um eignir í þessum stærðarflokki með sérgarði, gaman verður að sjá næstu skref,“ segir formaður íbúasamtakanna í bókun sinni.
Ekki náðist í Dóru Björt Guðjónsdóttur formann skipulagsráðs til að útskýra önnur áform á reitnum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.