Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli á Akureyri, segir að ofankoma síðasta sólarhrings hjálpi til við að koma brekkunum í gott stand fyrir páskavertíðina.
Það verður nóg um að vera í Hlíðarfjalli yfir páskana með þéttri dagskrá frá skírdegi og fram á páskadag. Páskaeggjamót, plötusnúðar og trúbador er meðal þess sem boðið verður upp á og sjálfur Aron Can treður upp á laugardag.
Opið verður frá klukkan 9 til 17 á skírdag, föstudaginn langa, laugardag og páskadag en frá klukkan 9 til 16 á annan í páskum.
„Aðstæður hafa verið svolítið erfiðar síðustu tvær vikur vegna hitans sem var, en það var mjög mikill hiti hérna. Við verðum með opið í dag og sjáum fram á að geta verið með opið út alla páskana,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is.
Segir hann að starfsfólk hafa verið búið að þrengja brekkur og vinna sig aðeins í haginn en allt hjálpi þegar lítið sé fyrir.
„Efra svæðið er mjög gott hjá okkur og neðra svæðið er ágætt. Þessi vetur er svolítið sérstakur og mjög lélegur snjóalega séð. Ég held að þú þurfir að fara 20 ár aftur í tímann til að finna álíka snjólítinn vetur,“ segir Brynjar sem hvetur alla til að skella sér í fjallið um páskana og alla aðra daga.
Óvissa er um opnun annarra skíðasvæða á Norðurlandi. Birgir Egilsson, svæðisstjóri skíðasvæðisins í Skarðsdal á Siglufirði, segir í samtali við mbl.is að hann geti ekki sagt af eða á eins og sakir standa.
„Það er búið að vera voða snjólítið hjá okkur en það er spurning hvað þetta gerir sem við fáum núna.
Það fór að snjóa í gærkvöldi, snjóar enn þá og á að snjóa fram að páskum,“ segir Birgir en bætir því við að dálítið rok sé með snjókomunni þannig að snjórinn festist síður.
Hann segir að vanalega sé opið um páska en nú sé það í uppnámi. „Við náðum að halda hér um helgina Sigló Free Ride-mótið sem heppnaðist mjög vel miðað við aðstæður. Hvort það verður okkar síðasta húllumhæ í bili eða hvort það verða páskarnir verður bara að koma í ljós,“ segir Birgir.
Sömu sögu er að segja frá Dalvík. Þar vonast menn enn til að geta haft skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli opið yfir páska. Hörður Finnbogason, framkvæmdastjóri skíðasvæðisins, segir að það hafi í raun verið búið að loka svæðinu en ákveðið að vera með lyftur í viðbragðsstöðu ef eitthvað myndi skyndilega breytast.
„Það þarf nú að snjóa töluvert mikið meira í viðbót til að þetta verði hægt. Við stefnum á að opna en erum ekki bjartir á það,“ segir Hörður.
Hefðin er að svæðið sé opið fram yfir páska að sögn Harðar, sem segir að oft hafi verið reynt að hafa opið fram að mánaðamótum apríl-maí.
Dalvíkingar framleiða snjó eins og fleiri en Hörður segir að ákveðið hafi verið að framleiða í undirlag í vetur og treysta á náttúrulegan snjó, „en þetta er úrkomuminnsti vetur sem elstu menn muna snjóalega séð,“ segir hann og bætir við að úrkoman síðasta sólarhringinn sé sú mesta sem Norðlendingar hafa fengið síðan í janúar.
Helga Daníelsdóttir, formaður skíðadeildar Tindastóls á Sauðárkróki og umsjónarmaður skíðasvæðisins ásamt Steingrími Rafni Friðrikssyni, segir að það snjói en hún sé ekki viss hvað snjórinn muni festast vel.
„Það á að hætta að snjóa í nótt og við verðum bara að sjá til hvernig dagurinn á morgun fer.“ Helga segir að vanalega sé opið um páska en eftir páska detti aðsókn alveg niður.
Sama óvissa um opnun um páska er á skíðasvæðinu á Húsavík á Reykjaheiði við Reyðarárhnjúk. Stefán Jón Sigurgeirsson, íþróttafulltrúi í Norðurþingi, segir í samtali við mbl.is að svæðinu hafi verið lokað vegna snjóleysis en nú hugsi menn sinn gang í kjölfar ofankomu síðasta sólarhrings.
„Við munum bara taka stöðuna á morgun og munum tilkynna á Facebook-síðunni okkar þegar við sjáum hvernig þetta þróast.“
Skíðasvæði Ólafsfirðinga í Tindaöxl verður lokað yfir páskana en svæðið hefur meira og minna verið lokað í vetur vegna snjóleysis.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.