Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps fyrir að hafa á nýársnótt lagt nokkrum sinnum til tveggja manna með hníf, og þar með reynt að svipta þá lífi, eins og segir í ákærunni sem mbl.is hefur undir höndum.
Árásin átti sér stað á Kjalarnesi.
Í ákærunni segir að sakborningurinn hafi stungið brotaþolana ítrekað. Annan stakk hann ítrekað í bakið með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættuleg stungusár á aftanverðum vinstri brjóstkassa með miklum blæðingum.
Hlaut hann einnig áverka „í gegnum húð á mótum brjóstkassa og kviðs, gat á milli rifja 8 og 9 vinstra megin og loft- og blóðbrjóst af völdum áverkanna“.
Er sakborningurinn einnig sagður hafa stungið hinn brotaþolann ítrekað í brjóstkassann og kviðinn.
Sá hlaut einnig lífshættuleg stungusár á vinstri brjóstkassa í gegnum brjóstvöðva.
Er þess krafist að sakborningurinn greiði brotaþolum miskabætur, öðrum fjórar milljónir króna auk vaxta og hinum fimm milljónir króna auk vaxta.