Þingmaður stjórnarandstöðunnar segir nýtt frumvarp menntamálaráðherra varpa ljósi á sinnuleysi stjórnvalda þegar kemur að menntun ungmenna með fötlun. Verið sé að reyna að færa vandann og fela hann. Stjórnarþingmaður segir að aðeins sé verið að skerpa heimild í lögum í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis.
Guðmundur Ari Sigurjónsson þingmaður Samfylkingarinnar segir nýtt frumvarp um breytingar á lögum um framhaldsskóla ekki skikka skólana til að velja nemendur út frá forsendum sem ekki tengjast námsárangri, heldur sé einfaldlega verið að skerpa á heimild skólanna til að gera slíkt.
„Í rauninni er verið að styrkja faglegt sjálfstæði skólanna til að leggja mat á hvernig þeir haga sinni inntöku,“ segir Guðmundur Ari í samtali við mbl.is um nýja frumvarpið, sem vakið hefur mikla athygli eftir að fjallað var um efni þess á mbl.is í gærkvöldi.
Sigríður Á. Andersen þingmaður Miðflokksins segir augljóst að verið sé að beina því til framhaldsskóla að horfa til annarra sjónarmiða en námsárangurs við inntöku.
„Þetta er klárlega að minnsta kosti samþykki fyrir því að horfa til annarra þátta heldur en námsárangurs, sem ég er ekki sammála. Það er verið að samþykkja það án þess að það fyrir liggi að þetta sé til árangurs fyrir nokkurn mann,“ segir hún um frumvarpið og heldur áfram:
„Hvorki fyrir nemandann sem er tekinn inn í skólann né fyrir hina nemendurna sem er hafnað – og ekki heldur fyrir þá sem þurfa að sæta því að vera í námi með öðrum nemendum sem ekki hafa forsendur námslega séð til að stunda nám í skólanum.“
Frumvarp til breytingar á lögum um framhaldsskóla liggur nú fyrir þinginu, eins og áður sagði, og er þar lögð til breyting á 1. og 2. málsl. 2. mgr. 32. gr. laganna.
Á hún að hljóða svo:
„Hver framhaldsskóli ber ábyrgð á innritun nemenda í viðkomandi skóla í samræmi við reglugerð skv. 3. mgr. og önnur fyrirmæli ráðherra um innritun. Við ákvörðun um innritun nemanda er heimilt að líta til sjónarmiða sem tengjast nemandanum, þ.m.t. námsárangurs úr grunnskóla og annarra upplýsinga sem nemandinn lætur skólanum í té, og sjónarmiða sem tengjast skólasamfélagi viðkomandi skóla, þ.m.t. sem miða að því að auka fjölbreytni í nemendahópnum.“
Þess skal getið að framhaldsskólum er þegar heimilt að líta til annarra þátta en einkunna, við val á nemendum, samkvæmt reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla.
Taki frumvarpið gildi er heimildin aftur á móti færð í lög.
Í samtali við mbl.is um frumvarpið sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, að hann teldi ósanngjarnt að framhaldsskólar litu aðeins til einkunna þegar nemendur væru teknir inn.
Nemendur byggju oft yfir öðrum hæfileikum.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að fjölbreytni meðal framhaldsskólanema hafi aukist á undanförnum árum, m.a. með fjölgun nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og nemenda sem vegna fötlunar eða annarra ástæðna þurfa sérstakan stuðning.
„Mikilvægt er að jafna tækifæri nemenda í innritunarferlinu og að allir framhaldsskólar axli ábyrgð á fjölbreyttum nemendahópi. Er því tilefni til að skýra og eftir atvikum styrkja lagastoð reglna um innritun í framhaldsskóla.“
„Það er ekki verið að senda þau skilaboð að þau eigi að haga inntökunni með ákveðnum hætti heldur að styrkja þá heimild sem umboðsmaður Alþingis var búinn að úrskurða – að nauðsynlegt væri að löggjafinn myndi skerpa á þeim heimildum, ef framhaldsskólar eiga að hafa tök á að líta til fleiri þátta en einungis námsárangurs. Þarna er verið að taka á því,“ segir Guðmundur Ari.
Hann nefnir auk þess að framhaldsskólar hafi undanfarin ár horft til fleiri þátta en námsárangurs þegar nemendur eru teknir inn, þó svo að námsárangurinn sé enn sá grunnur sem horft sé til.
„Það er verið að taka inn stráka sem eru með aðeins lægri einkunnir til að skólarnir verði ekki of einsleitir hvað kyn varðar. En talið var nauðsynlegt að skýra heimildina í lögunum,“ ítrekar hann.
Sigríður segir að þó svo að skólarnir hafi litið svo á að þeim hafi verið heimilt að líta til fleiri sjónarmiða en námsárangurs, við innritun nemenda, þá séu ákveðin tilmæli sem felist í frumvarpinu frá ráðherra til framhaldsskólanna.
Þau séu á þá leið að horfa skuli í auknum mæli í annað en einkunnir til að auka fjölbreytni í nemendahópnum.
„En spurningin sem vaknar auðvitað er hvort þetta sé eðlilegt viðmið í framhaldsskóla, að líta til annarra þátta en hæfni nemanda til þess að stunda nám við viðkomandi skóla,“ segir hún.
„Núna eru skólarnir auðvitað mjög mismunandi og sumir mjög sérhæfðir. Það er ekkert óeðlilegt að mínu mati að skólarnir velji þá nemendur sem þeir telji að geti spjarað sig best í þeim skóla.“
En hverjir eru kostir þess að líta fram hjá einkunnum?
„Þó þú sért kannski með líttillega lægri meðaleinkunn í einhverjum bóklegum áföngum en ert kannski búinn að vera afrekseinstaklingur í öðru sem snýr að skólasamfélaginu, hvort sem það er félagsstarf, málfundafélög eða íþróttastarf, þá er í raun verið að veita heimild til skólanna til að líta til þeirra þátta líka ef þeir vilja það,“ segir Guðmundur Ari.
En er einhver hætta á að ef við erum að líta til árangurs í íþróttum, tómstundum eða til dæmis hljóðfæraleiks, að það sé þá verið að hampa nemendum sem eru með sterkara bakland en aðrir nemendur – að það sé verið að teygja sig eftir þeim hópi frekar en öðrum?
„Ég tel ekki svo vera. Þetta eru ólíkir hæfniþættir sem er þá verið að líta til. Ég treysti framhaldsskólunum mjög vel til að útbúa sinn inntökuferil faglega og út frá þeim þáttum sem þeir telja mikilvæga fyrir sitt skólastarf,“ segir Guðmundur Ari og heldur áfram:
„Þarna er líka verið að draga fram nemendur sem eru með fatlanir eða greiningar ef framhaldsskólar vilja taka þátt í að styðja við fjölbreytta nemendahópa. Sumir framhaldsskólar hafa fengið ákveðna elítustimpla á sig en þarna er þeim í rauninni gefin heimild ef þeir vilja að ákveðinn hluti nemenda sinna séu einstaklingar sem þurfa kannski viðbótarstuðning – þeir eru kannski með einhvers konar fatlanir, greiningar eða annað. Þá geta þeir tekið þátt í því að mennta þessa nemendur líka og stuðla þannig að fjölbreytni í nemendahópnum.“
Sigríður er á öðru máli og dregur í efa þá kosti sem áhersla á að auka fjölbreytileika kunni að hafa í för með sér. Segir hún í raun alveg óljóst hvaða kosti það hefur að horfa ekki aðeins til einkunna.
„Mér finnst með þessari lagabreytingu – óháð því hvort skólarnir telji að sér hafi verið heimilt að gera þetta hingað til, menn vera að missa sjónar af markmiði framhaldsskólanna,“ segir hún.
Þá segir hún tilmæli ráðherra til framhaldskólanna, sem komi fram í greinargerðinni í frumvarpinu, um að axla ábyrgð á fleiri nemendum með fötlun og líta fram hjá námsárangri, varpa ljósi á „hrópandi úrræða- og sinnuleysi stjórnvalda“ gagnvart slíkum nemendum.
„Þetta er gert vegna þess að stjórnvöld – og foreldrar láta þetta yfir sig ganga – vegna þess að stjórnvöld hafa ekki gert gangskör að því að tryggja slíkum nemendum eitthvað viðunandi úrræði í skólakerfinu,“ segir hún.
„Það er auðvitað það sem þarf að gera – en ekki færa vandann, reyna að dreifa honum einhvern veginn og fela hann inn í almennum skólum. Það er engum greiði gerður með því og allra síst þeim nemendum sem eru teknir inn í slíka skóla.“
Nú er markmiðið að auka fjölbreytileika í nemendahópi framhaldsskóla. Eru engir kostir sem fylgja því að þínu mati?
„Það kemur hvergi fram í greinargerðinni fyrir hvern það er gott að auka fjölbreytni nemendahóps í skóla. Það þarf að vera skilgreint og það þarf að upplýsa um það fyrir hvern það á að vera gott,“ segir Sigríður.
„Er það gott fyrir aðra nemendur í skólanum að vera með nemendur sem eru kannski ekki að halda takti við kennsluáætlun? Er það gott fyrir þann nemanda sem er að ströggla alla sína skólagöngu í viðkomandi skóla við námið?“ spyr hún.
„Eins og dæmi eru um, þar sem menn hafa til dæmis í Verzlunarskólanum verið að taka inn drengi sem hafa sýnt minni námsárangur heldur en stelpur sem er hafnað við skólann. Það eru dæmi um að þeir falli úr skólanum.“
Hún segir jafnframt oft gleymast að þegar einhverjum nemanda sé veittur forgangur á grundvelli annars mælikvarða en þess sem ætti að liggja til grundvallar við inntöku í skóla, sem sé námsárangur, þá sé það gert á kostnað annars nemanda.
„Það er verið að útdeila takmörkuðum gæðum og þá þarf að svara því hvernig er sanngjarnast að útdeila þessum gæðum með tilliti til þess hvert markmið skólanna er.“
Hún segir fólk þurfa að horfast í augu við hlutverk framhaldsskóla, sem sé að mennta nemendur en ekki ala þá upp. Þá ítrekar hún að markmið framhaldsskóla sé, eins og háskóla, að útskrifa góða nemendur, ekki bara að útskrifa nemendur.
„Þetta eru þau sjónarmið sem þarf að hafa í huga,“ segir Sigríður.
„Hvort það sé jákvætt að koma í veg fyrir að nemandi, sem hefur gert allt sem í hans valdi stendur og stendur fyllilega undir þeim kröfum sem skólinn gerir til náms, fái ekki inngöngu í skólann vegna þess að einhver annar, sem stendur ekki undir námskröfum þess skóla, fái pláss.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.