Rán var framið í Gullsmiðju Ófeigs í gærkvöldi. Annar eigenda segir fjárhagslegt tjón nema að minnsta kosti nokkur hundruð þúsund krónum. Hann segir jafnframt að þjófarnir séu hið svokallaða vasaþjófagengi, sem herjað hefur á ferðamenn á Suðurlandi að undanförnu.
„Ég hef bara mjög góðar heimildir um að þetta séu þau [vasaþjófagengið frá Suðurlandi]. Þetta bara eru þau,“ segir Bolli Ófeigsson í samtali við mbl.is, en hann á verslunina ásamt móður sinni.
Ekki er langt síðan mbl.is fjallaði um vasaþjófagengið á Suðurlandi, sem samanstendur af um tíu manna hópi erlendra einstaklinga.
Bolli segist eiga eftir að fara yfir allt sem þjófarnir tóku, en eins og staðan sé núna sjái hann að minnsta kosti að heill bakki af gulli hafi verið tekinn.
„Ég á svo eftir að fara yfir hvað var tekið annars staðar í búðinni, af því þau voru svo mörg. Þessir þjófar taka yfirleitt einn hlut hér og einn hlut þarna, þannig að það er erfiðara að sjá það,“ segir Bolli og nefnir að um átta einstaklinga sé að ræða sem tóku þátt í ráninu.
Miðað við lýsingar Bolla af upptökum öryggismyndavéla í versluninni, er um þrælskipulagt rán að ræða.
Mikið hafi verið að gera í búðinni þegar par gekk inn og náði að halda athygli móður Bolla, sem var að störfum við afgreiðslu. Síðan hafi fleiri einstaklingar komið inn einn af öðrum og verslunin orðið full, svo erfitt hafi verið fyrir móður hans að fylgjast með öllum inni.
Bolli segir rán af þessum toga ekki vera ný af nálinni.
„Ég er bara orðinn svo þreyttur á þessu. Þetta kemur í svona syrpum og þetta eru alltaf atvinnuþjófar.“
„Það sem vakti fyrir mér er bara að vara aðra við. Ég hef aldrei fengið til baka nokkurn einasta hlut sem hefur verið stolið hjá okkur og ég veit að ég fæ þetta ekki til baka. En ég vil bara vara fólk við að hafa augun opin.“
Hann segir lögreglu hafa komið í gær og fengið að sjá myndir af þjófunum og hvernig þeir voru klæddir. Leit hafi svo hafist í miðborginni.
„Þetta er alveg þekkt. Við höfum fengið til okkar inn í búð þjófa sem koma svo aftur inn einum og hálfum tíma síðar í allt öðrum fötum, en halda að maður þekki þau ekki.“