Umboðsmaður Alþingis segir starfsmann innviðaráðuneytisins hafa brugðist hæfi til að taka þátt í vinnu við staðfestingu á strandsvæðisskipulagi Austfjarða.
Var aðkoma hans ekki í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi, vegna fyrri starfa viðkomandi hjá Skipulagsstofnun. Þar tók starfsmaðurinn þátt í undirbúningi að tillögu svæðisráðs að skipulaginu.
Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns.
Er það mat umboðsmanns að slík aðkoma geti leitt til þess að starfsmanninn bresti hæfi til að taka þátt í meðferð sama máls hjá öðru stjórnvaldi sem sé ætlað að hafa eftirlit með því að ákvarðanir séu í samræmi við lög.
Beinir umboðsmaður því til félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, sem hefur tekið við málaflokknum, að kanna hvort og þá hvaða áhrif þessi niðurstaða hafi á ákvörðun innviðaráðherra um að staðfesta strandsvæðisskipulag Austfjarða.