Jarðskjálfti sem mældist við Grjótárvatn í Ljósufjallakerfi var einangraður og engir eftirskjálftar hafa mælst í kjölfarið. Skjálftavirkni hófst þar árið 2021 og hefur hún að mestu verið bundin við Grjótárvatn, Háleiksvatn og Langavatn.
Skjálftarnir hafa verið á 15-20 km dýpi og engin undantekning var á því í morgun. Skjálftinn mældist upp á 3,7 stig og er sá stærsti frá því skjálftavirkni hófst á svæðinu að nýju.
„Þetta var bara einn einangraður skjálfti,“ segir Steinunn Helgadóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Ljósufjallakerfið er eitt af eldstöðvakerfum á Íslandi. Það liggur frá Snæfellsnesi og að Grábrók og dregur nafn sitt af Ljósufjöllum.
„Þessi skjálfti segir okkur ekkert annað en það að hann sé sá stærsti frá árinu 2021. Kvika er á miklu dýpi og við sjáum enga aflögun, enda er þetta bara einn skjálfti en ekki um neina hrinu að ræða,“ segir Steinunn.