Virði skóga borgarinnar nokkur hundruð milljarða

Fjallað er um skóga borgarinnar í nýrri vísindagrein.
Fjallað er um skóga borgarinnar í nýrri vísindagrein. mbl.is/Sigurður Bogi

Lítið er um skóga í Reykja­vík í sam­an­b­urði við aðrar evr­ópsk­ar borg­ir. Þrátt fyr­ir það er heild­ar­virði skóga í Reykja­vík metið á 576 millj­arða ís­lenskra króna.

Þetta kem­ur fram í nýrri rann­sókn á vist­kerfi skóga í Reykja­vík. Rann­sókn­in birt­ist í vís­inda­tíma­rit­inu Ar­boriacultural Journal en að henni unnu Aaron Shear­er, sér­fræðing­ur hjá Landi og skógi, og Duncan Slater. 

Grein­in ber heitið „Character­istics and be­nef­its of Reykja­vik's ur­ban for­est Ice­land“. Eins og tit­ill­inn gef­ur til kynna er fjallað um ein­kenni og kosti trjá­gróðurs í Reykja­vík. 

Um­tals­vert minni trjáþekja en ann­ars staðar

Skoðaðir voru 278 fjög­ur hundruð fer­metra reit­ir í hverf­um borg­ar­inn­ar, al­menn­ings­görðum, kirkju­görðum og skóglandi. Reit­irn­ir voru vald­ir með handa­hófs­kenndu úr­taki. 

Niðurstaða þeirra fé­laga leiddi til þess að heild­ar­krónuþekja væri 8,7%, með ±0,9% staðal­fráviki. Er þetta mark­tækt minna en geng­ur og ger­ist í þétt­býl­um á norður­hveli jarðar. 

Í um­fjöll­un Lands og skóg­ar um grein­ina seg­ir að al­gengt sé í borg­um að krónuþekj­an sé fimmtán til tutt­ugu pró­sent. 

„Þetta þýðir með öðrum orðum að trjá­gróður í Reykja­vík telst lít­ill miðað við flest­ar evr­ópsk­ar borg­ir, þótt mik­il­vægi þeirr­ar vist­kerf­isþjón­ustu sem tré og skóg­ar veita sé síst minna í þess­ari norðlægu borg en öðrum suðlægri.“

Rann­sókn­in leiddi einnig í ljós að heild­ar­fjöldi trjáa í Reykja­vík væru um 350 þúsund, með ±40.000 staðal­frávik, og miðast þétt­leik­inn þá við 71 tré á hekt­ara. 

Rétt að stefna á gróður­setn­ingu 35.000 trjáa

Aðstand­end­ur rann­sókn­ar­inn­ar töldu einnig vanta upp á fjöl­breytni trjánna í borg­inni. Fund­ust aðeins 19 trjá­teg­und­ir inn­an sýnareit­anna þar sem fjór­ar ríkj­andi teg­und­ir voru með 78% hlut­fall af heild­inni. Þess­ar teg­und­ir voru ilm­björk, ala­ska­ösp, sitka­greni og reyniviður. 

„Þessi tak­markaða teg­unda­fjöl­breytni bend­ir til þess að borg­ar­skóg­lendið skorti seiglu gagn­vart vax­andi ógn­um, bæði líf­fræðileg­um ógn­um eins og mein­dýr­um eða sjúk­dóm­um og ann­ars kon­ar ógn­um eins og breyttu lofts­lagi,“ seg­ir í um­fjöll­un Lands og skóg­ar. 

Í niður­stöðum rann­sókn­ar­inn­ar seg­ir að rétt sé að stefna á 30% skóg­arþekju fyr­ir árið 2050 með áætl­un­um um kerf­is­bundna gróður­setn­ingu þar sem um 35.000 tré yrðu gróður­sett á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert