Í maí verður opnaður nýr verslunarkjarni á Selfossi þar sem fimm verslanir munu hefja starfsemi sína samtímis.
Að uppbyggingunni stendur félagið Vigri ehf. sem er í eigu Hannesar Þórs Ottesen sem hefur staðið að uppbyggingu íbúðar- og iðnaðarhúsnæðis á svæðinu í áratugi, að segir í tilkynningu.
Meðal verslana sem opna eru hin alþjóðlega tískuverslun Gina Tricot, bókabúðin Penninn-Eymundsson, íþróttavöruverslunin H-verslun og Emil og Lína, verslun með íslenskan fatnað og vörur fyrir börn.
Verslunarhúsnæðið sem nú er risið er gegnt ÁTVR, Bónus og Lindex og telur rúmlega 1.600 fermetra og inniheldur fimm verslunarbil af ólíkri stærð. Gert er ráð fyrir að allar verslanir sem upp eru taldar opni dyr sínar samtímis í maí næstkomandi.
Hannes Þór segist einstaklega ánægður með að geta tekið þátt í þeirri öflugu þróun sem nú sé að eiga sér stað á Selfossi
„Með fyrirhugaðri nýrri brú yfir Ölfusá á næstu árum og aukinni umferð um Larsenstræti verður staðsetning verslunarkjarnans enn betri og mun efla þjónustu á svæðinu. Við reiknum með að hið nýja húsnæði muni skapa um 25-35 ný störf í verslun og þjónustu, sem styrkir enn frekar atvinnulífið og samfélagið í heild sinni.“