Fjármálaráð gagnrýnir nýtt verklag sem ríkisstjórnin hefur boðað hvað varðar útfærslu á skiptingu á útgjöldum til útgjaldasviða, sem geri ráðinu erfitt um vik að uppfylla lögbundið hlutverk sitt.
Nýja verklagið felur í sér að í fjármálaáætlun komi fram skipting útgjalda til málefnasviða en ráðherrum málefnasviðanna er í kjölfarið falið að ákveða hvernig fjármunum er skipt innan málasviðanna. Sú skipting kemur því fyrst fram í fjárlögum að hausti en kom áður fram í fjármálaáætlun.
Fjármálaráð rýnir fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, en ekki fjárlög.
Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt verklagið harðlega. Allir þingmenn hennar gengu út úr þingsal við umræðu á fjármálaáætlun til að mótmæla skorti á gögnum.
Fjármálaráð segir í nýbirtri álitsgerð sinni vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar að hið nýja verklag feli það í sér að framkvæmd fjármálaáætlunarinnar sé undanskilin rýni ráðsins þar sem hún komi að auknu leyti fram í fjárlögum. Fyrir vikið eigi ráðið erfiðara með að uppfylla lögboðið hlutverk sitt.
„Lög um opinber fjármál kveða á um að fjármálaráð skuli veita umsagnir um fjármálastefnu og fjármálaáætlun en fjárlög eru undanskilin rýni ráðsins. Þetta nýja verklag gerir það því að verkum að fjármálaráð á erfiðara með en áður að uppfylla lögbundið hlutverk sitt að greina og leggja mat sitt á hvernig markmiðum fjármálaáætlunar skuli náð út frá þeim grunngildum sem lögin kveða um að stefnumörkun í opinberum fjármálum skuli byggð á,“ segir í áliti ráðsins.