Óvenju langar raðir og um 40 mínútna bið mynduðust við öryggisleit á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Flosi Eiríksson, staðgengill Guðjóns Helgasonar, fjölmiðlafulltrúa Isavia, segir að fólk hafi verið mun seinna á ferð en búast mætti við fyrir flug og að það hafi skýrt örtröðina.
Raðir styttust þó verulega eftir morguntraffíkina.
Að sögn manns sem var í flugstöðinni í morgun náði röðin á tímabili langt niður stiga sem leiðir að öryggisleitinni.
„Farþegar í morgun voru heldur seinna á ferðinni en við höfðum gert ráð fyrir,“ segir Flosi.
„Það var mikil röð á tímabili í morgun. Það var engin röð snemma í morgun og það er engin röð núna en á um eins og hálfs tíma tímabili fór biðtíminn alveg upp í 40 mínútur,“ segir Flosi.