Ríkur meirihluti landsmanna er mótfallinn því að stofnaður verði íslenskur her. Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallups sem gerði könnun á málinu dagana 21. mars til 21. apríl.
Alls eru 72% á móti því að íslenskur her verði stofnaður en tæplega 14% eru því hlynntir.
Fram kemur að einn af hverjum fimm körlum er hlynntur stofnun hers en einungis 8% kvenna.
Einhver munur er á viðhorfi fólks eftir menntun og tekjum og eru þeir sem eru tekjulægstir andvígastir hugmyndinni. Munurinn er þó meiri eftir því hvað það kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag.
Kjósendur Miðflokksins eru hlynntari því að íslenskur her verði stofnaður en þeir sem kysu aðra flokka. Kjósendur Sósíalistaflokk Íslands eru hins vegar andvígari því en aðrir.