Í dag verður hætt að nota lögreglustöðina í Flatahrauni í Hafnarfirði fyrir neyðarvistun barna og unglinga. Úrræðið hefur verið nýtt frá því í lok október á síðasta ári og hafa börn niður í 12 ára verið vistuð þar í fangaklefum við óboðlegar aðstæður.
Framkvæmdum við tvö herbergi á neyðarvistun Stuðla er nú lokið og hægt verður að taka þau herbergi í notkun í dag, samkvæmt skriflegu svari Barna- og Fjölskyldustofu (BOFS) til mbl.is. Eiga þessi tvö herbergi að duga til og mun öll neyðarvistun barna og unglinga því hér eftir fara fram á Stuðlum.
„Miðað við notkun á rýmum í Flatahrauni ættu þessi tvö herbergi að duga fyrir þá skjólstæðinga sem þurfa sérstaklega örugg rými í upphafi vistunar,“ segir í svari BOFS.
Enn standa þó yfir framkvæmdir við neyðarvistun Stuðla, en sú álma gjöreyðilagðist í bruna í október síðastliðnum, þar sem 17 ára barn lést.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, greindi frá því í viðtali við mbl.is þann 2. mars síðastliðinn að ákveðið hefði verið að endurbyggja tvö herbergi með hraði til að bregðast við vandanum sem upp væri kominn, og ættu þau að standast öryggiskröfur.
Áttu framkvæmdir að taka fjórar vikur, en Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs BOFS, segir í skriflegu svari að þær hafi tekið lengri tíma en áætlað var í upphafi, enda um mjög sérhæfða starfsemi að ræða og margar öryggiskröfur sem þurfti að uppfylla.
Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri BOFS, sagði í samtali við mbl.is í febrúar, að Flatahraun væri aðeins notað fyrir erfiðustu tilfellin, þegar börn beittu miklu ofbeldi eða sýndu aggressífa hegðun vegna fíkniefnaneyslu.
Þau væru vistuð í Flatahrauni í fyrstu en svo flutt yfir í neyðarvistun á Stuðlum. Því má ætla að nýju herbergin séu öruggari en þau sem fyrir voru.