„Þetta er bara eins og með annað sem MAST er að gera, þeir fara alltaf fram úr sjálfum sér í öllum hlutum,“ segir Magnús Margeirsson, eigandi hestaleigunnar Alhesta í Þorlákshöfn sem Matvælastofnun lokaði nýverið á þeim forsendum að velferð hrossa Magnúsar væri „óviðunandi“, eins og stofnunin orðaði það í tilkynningu sinni.
„Það er búið að ganga frá því sem þeir báðu um að væri gert, en svo er bara lokað á mann án þess að gefa manni nokkurn fyrirvara eða nokkurn skapaðan hlut,“ segir Magnús ómyrkur í máli, Skagfirðingur sem haft hefur hesta í sinni umsjá og eigu frá þrettán ára aldri og telur sig bera verulega skarðan hlut frá borði í samskiptum sínum við stofnunina.
„Þeir komu bara hérna inn í húsið hjá mér í vetur og þá þurfti ég að skipta um hey,“ segir Magnús frá, beðinn að gera grein fyrir málinu frá upphafi. „Það var alveg satt, heyið var ekki nógu gott hjá mér í vetur og ég skipti um hey sjöunda febrúar og fór að gefa hestunum fóðurbæti vegna þess að heyið var ekki nógu gott. Síðan hafa hestarnir bara verið á uppleið,“ heldur hann áfram.
Magnús kveðst fúslega viðurkenna að einhverjir hesta hans væru of grannir. „Og það getur bara komið fyrir hvern sem er. Ég var búinn að fá dýralækni til að skoða hestana hjá mér og fóðurfræðing til að skoða heyið hjá mér og þetta var allt í gangi til þess að laga og lagfæra fóðrunina. Ég skil ekki þetta upphlaup hjá þeim að loka hestaleigunni bara einn, tveir og þrír,“ segir Magnús og er mikið niðri fyrir, sviptur saltinu í sinn graut.
Hann heldur áfram og segist geta farið með hvern sem er inn í hesthúsið og sýnt hestana, hann skammist sín ekki fyrir neitt. „Ég hef ekki farið illa með nokkra skepnu,“ segir Magnús.
Hann rifjar upp langa sögu sína tengda hestum. „Ég var með hesta endalaust í Skagafirði, bæði úti í sveit og á Sauðárkróki, aldrei nokkurn tímann kom það fyrir að forðagæslumaður fyndi að skepnum sem ég var með, en um leið og ég kem hingað suður stoppar það ekki að ég sé klagaður út af skepnunum. [MAST] eru búnir að liggja á mér síðan ég byrjaði hér í Þorlákshöfn, en þeir hafa ekki haft neitt á mér, það er bara verið að drepa niður fyrirtækið mitt,“ segir Magnús argur.
Hann kveðst aðspurður hafa lifað ágætu lífi af rekstri sínum, verið mestmegnis einn, en einstaka sinnum með aðstoðarfólk.
En hvað gerist þá núna?
„Ég er búinn að vera með menn í vinnu fyrir mig til þess að ganga frá þessu gagnvart MAST, ég vildi ekki skipta mér af þessu sjálfur,“ svarar hann, en kveðst þó hafa rætt við lögfræðing MAST. „Hann sendi mér bréfið um lokunina og þegar ég hringdi í hann sagði hann að það hefðu ekki komið nein andsvör frá mér. Þó að menn á mínum vegum hafi sent nokkur bréf til þeirra að mínu frumkvæði, til dæmis dýralæknir og fóðursérfræðingur sem ég kallaði til vegna þess að ég treysti ekki á mat MAST á hlutunum,“ heldur hann áfram.
Magnús kveður eftirlitsstofnunina fara fram úr sér „og ljúga hreinskilnislega um hlutina og gera þá miklu verri heldur en þeir eru. Ég get sannað það og sýnt og ég mun gera það,“ segir Skagfirðingurinn sem kveðst ætla að fara í málið strax eftir páska, hann ætli sér ekki að láta rekstur sinn liggja niðri með tilheyrandi tekjutapi. Klykkir Magnús Margeirsson út með því að bjóða ritstjórn mbl.is í hesthús sitt til að kynna sér stöðu mála þar.
„Ykkur er velkomið að koma og skoða þetta sjálfir, það er bara þannig.“