Eiginkona manns sem lést eftir atvik í einbýlishúsi á Arnarnesi á föstudag var einnig send á sjúkrahús til aðhlynningar á föstudagskvöld.
Þetta herma heimildir mbl.is.
Dóttir þeirra situr í gæsluvarðhaldi og rennur úrskurður um það út í dag.
Lögregla verst fregna af rannsókn málsins en Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, segir málið viðkvæmt.
Vill hún ekki tjá sig um hvort rannsókn beinist að því hvort brotið hafi verið gegn tveimur einstaklingum.
Eins tjáir hún sig ekki um hvort tekin hafi verið ákvörðun um hvort lögregla muni óska eftir áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir dótturinni.
Dóttirin er 28 ára gömul og var handtekin í heimahúsi í Garðabæ á föstudag eftir að faðir hennar var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Var hann með nýlega og eldri áverka en ekki hefur verið gefið upp hver dánarorsökin var.