Maðurinn sem lést eftir atvik á heimili sínu við Súlunes í Garðabæ á föstudag hét Hans Roland Löf, tannsmiður, fæddur 1945.
Var hann búsettur á Arnarnesi í Garðabæ ásamt eiginkonu sinni og dóttur þeirra, Margréti Höllu Hansdóttur Löf, sem nú situr í gæsluvarðhaldi.
Eiginkona mannsins var einnig send á sjúkrahús svo að hlúa mætti að henni, samkvæmt heimildum mbl.is.
Síðdegis í dag var varðhaldið yfir Margréti framlengt um þrjár vikur, til 7. maí, en samkvæmt fyrsta úrskurði héraðsdóms átti varðhaldið að renna út í dag.
Viðbragðslið var kallað að heimilinu snemma að morgni föstudagsins 11. apríl.
Hans, sem átti 80 ára afmæli þann dag, lá meðvitundarlaus og þungt haldinn þegar viðbragðslið bar að. Samkvæmt heimildum bar hann hvort tveggja gamla og nýja áverka.
Margrét Halla, sem daginn áður varð 28 ára, var tekin höndum á vettvangi eftir að faðir hennar var fluttur á sjúkrahús, en þar var hann úrskurðaður látinn.
Lögregla verst fregna af rannsókn málsins og segir það viðkvæmt. Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, neitaði að tjá sig um hvort rannsókn beindist að því hvort brotið hefði verið gegn tveimur einstaklingum þegar mbl.is ræddi við hana í dag.