Stjórnendur Faxaflóahafna eru bornir þungum sökum í tölvupósti sem Bjarni Sigfússon vélstjóri, fyrrverandi starfsmaður Faxaflóahafna, sendi öllum fulltrúum í sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem eiga fyrirtækið. Hann segir tilganginn vera að vekja athygli á „mjög svo vafasömum stjórnarháttum yfirmanna Faxaflóahafna“, og snýr mál hans að þeim Gísla Hallssyni yfirhafnsögumanni, Ólafi Ólafssyni mannauðsstjóra og Gunnari Tryggvasyni hafnarstjóra.
Nokkrir fyrrverandi starfsmenn Faxaflóahafna hafa komið að máli við Morgunblaðið og farið ófögrum orðum um þá vinnustaðarmenningu sem þar ríkir. Í einhverjum tilvikum eru mál þeirra til meðferðar hjá verkalýðsfélögum.
Kveðst Bjarni, sem starfaði hjá Faxaflóahöfnum um tveggja ára skeið, hafa verið boðaður á fund þeirra Gísla og Ólafs þar sem þeir hafi viljað fá skýringar á því af hverju hann vildi ekki vinna yfirvinnu „þegar þeim hentaði“, eins og Bjarni orðar það. Hann bendir á að starfsmenn eigi að geta ráðstafað frítíma sínum sjálfir. Hann hafi mátt þola hótun um brottrekstur og fullyrðingar um að hann væri „viðvarandi vandamál“ fyrir Faxaflóahafnir. Þá séu þess dæmi að menn hafi verið þjófkenndir fyrir þá sök að hafa unnið mikla yfirvinnu.
„Ólafur ásakar mig um að vera hryðjuverkamaður. Ef það eru rædd við hann málefni þá er hann alveg sammála, en þegar hann er búinn að bera málefnin undir Gísla, þá er hann alveg sammála Gísla,“ segir Bjarni um samskipti sín við mannauðsstjórann.
„Hann sem mannauðsstjóri gerir sér ekki grein fyrir réttindum starfsmanna og er til í að horfa á þau og túlka eins og hann heldur að best sé,“ segir Bjarni og nefnir að Gunnar Tryggvason hafnarstjóri hafi ekki haft áhuga á að kynna sér mál hans.
„Gunnar talar um vinnusiðferði, ef ég vinn ekki yfirvinnu eins og þeim hentar og sýnist þá lendi það á öðrum samstarfsmönnum, og spyr hvar siðferðið sé í því hjá mér. Því miður var eini áhuginn sem hann sýndi þessu máli að hringja persónulega í mig til að segja mér upp í veikindaleyfi sem ég fór í vegna þeirrar árásar sem ég varð fyrir af hálfu Gísla og Ólafs. Ég er sendur til trúnaðarlæknis og fáum dögum eftir það kemur þessi persónulega hringing frá Gunnari,“ segir Bjarni í tölvupóstinum.
Hann nefnir að eftir samskipti við stjórnendur Faxaflóahafna hafi hann þurft að leita eftir sálfræðilegum stuðningi. Hann hafi óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni, en hafnarstjóri hafi aldrei svarað þeirri beiðni.
Hafnarstjóri hafi verið spurður að því hvort ekki væri ráðlegt að fá kunnáttufólk í samskiptum á vinnustöðum til að koma að málum og hlýða á sjónarmið starfsfólks, en hann hafi brugðist illa við og slitið fjarfundi þar sem þetta kom fram.
Leitað var viðbragða Gunnars Tryggvasonar hafnarstjóra vegna þessa, en hann kvaðst ekki tjá sig um málefni starfsmanna fyrirtækisins.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.