Sex hópnauðgunarmál hafa ratað á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá ársbyrjun 2025. Lögregla segir þetta greinilega vera aukningu frá fyrri árum. Í einhverjum tilfellum komi fíkniefnaviðskipti við sögu.
Í umfjöllun kvöldfrétta Stöðvar 2 fyrr í kvöld kom fram að á síðustu sex árum hafi um 6-9 hópnauðgunarmál verið skráð á ári hjá embætti lögreglustjóra. Nú eru rétt rúmlega þrír mánuðir liðnir af 2025 og þegar hafa sex hópnauðgunarmál verið skráð.
Þetta virðist því vera aukning, segir Bylgja Hrönn Baldursdóttir, lögreglufulltrúi kynferðisbrotadeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
„Miðað við þessar tölur er ekki hægt að segja annað en það,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Í síðasta mánuði voru þrír handteknir í tengslum við hópnauðgunarmál í Reykjavík.
Aldursbil gerenda og þolenda í málunum er um 18-45 ára, segir Bylgja, sem svarar aðspurð að allur gangur sé á því hvort gerendur séu eldri eða yngri en þolandinn.
Í einhverju tilfelli séu gerendur og þolandi af sama kyni. Yfirleitt séu gerendurnir tveir en hafi verið allt að fjórir.
Bylgja neitaði aftur á móti að svara hversu margir gerendur í þessum málum væru erlendir ríkisborgarar en í umfjöllun Stöðvar 2 kom fram að einn gerenda væri í farbanni.
Eru einhver tilfelli þar sem þetta tengist öðrum glæpum, mansali t.a.m. eða fíkniefnasölu?
„Það má alveg segja að í einhverjum tilfellum höfum við séð að um fíkniefnasölu sé verið að ræða,“ svarar hún en fer ekki nánar út í saumana.
Bylgja segist einnig við því fleiri mál rati inn á borð lögreglunnar með tilliti til umræðu á samfélagsmiðlum.
„Umræðan á netinu er bara þannig,“ svarar hún spurð út í þær vangaveltur. „Maður hefur svona veður af því að það sé verið að ræða það á samfélagsmiðlum að það séu fleiri aðilar sem ættu að fara að koma.“
En meira hafi hún ekki fyrir sér í þeim efnum.
Ef þessi þróun heldur áfram má búast við því að fjöldi tilkynntra hópnauðgana í ár veðri í hærri kanntinum.
„Þetta vekur mann til umhugsunar,“ segir Bylgja, sem kveðst ekki vera með útskýringu fyrir þessu á reiðum höndum. „Mögulega er þetta bara meiri vitundarvakning. Það má vel vera.“