Í kvöld og í nótt gætum við fengið að sjá síðustu norðurljósadýrðina í bili þar sem nú geisar býsna kröftugur segulstormur um jörðina.
Kórónugos sem varð á sólinni fyrir þremur dögum varpar orkuríkum sólvindi til jarðar, sem þýðir að ef aðstæður verða áfram eins í kvöld gæti fólk orðið vitni að ákaflega fallegum, litríkum og kvikum norðurljósum.
Stjörnufræðingurinn Sævar Helgi Bragason, gjarnan kenndur við viðfangsefnið sitt sem Stjörnu-Sævar, bendir á þetta í tilkynningu til fjölmiðla.
Hann segir að best sé að gjóa augunum til himins upp úr 22.30 og fram yfir miðnætti.
Hægt er að fylgjast með nákvæmum upplýsingum um geimveðrið á norðurljósa- og stjörnuskoðunarvefnum icelandatnight.is/is. Þar má ennfremur sjá skýjahulukort en aðstæður eru kjörnar mjög víða um land.
Norðurljósatímabilið er senn á enda, að sögn Sævars, nú þegar ekki er lengur fullkomið myrkur á Íslandi.
Sævar segir að tímabilið hafi verið með ágætum en gleðifregnin sé sú að næstu ár verði norðurljósin í hámarki þegar virkni sólar fer smám saman dvínandi.