Segulómfyrirtækið Intuens tók til starfa 2023. Forsvarsmenn þess segja að tækni þess og þjónusta geti aukið hagkvæmni í ríkisrekstri. Þrátt fyrir það gera Sjúkratryggingar allt til að knésetja það.
Þetta fullyrða stjórnendur fyrirtækisins í afar upplýsandi viðtali á vettvangi Spursmála. Steinunn Erla Thorlacius er framkvæmdastjóri fyrirtækisins en hún er einnig menntaður geislafræðingur. Guðbjartur Ólafsson er heimilislæknir og starfar hjá fyrirtækinu.
Þrjú fyrirtæki sinna segulómþjónustu eða myndgreiningu við heilbrigðiskerfið á Íslandi, auk þeirra tækja sem starfrækt eru undir merkjum Landspítala Háskólasjúkrahúss.
Eftir að Intuens kom á markað með nýjustu tækni frá tæknirisanum Philips hefur fyrirtækið gert reka að því að fá aðkomu að þjónustusamningum Sjúkratrygginga Íslands.
Í þeirri vinnu kom í ljós að samningar sem í gildi höfðu verið við önnur fyrirtæki áratugum saman stóðust ekki lög. Var þá ákveðið að ráðast í útboð á þjónustunni og þá í því skyni að tryggja aðgengi aðila á markaði en fyrst og fremst til þess að tryggja besta verð fyrir ríkissjóð sem ber hitann og þungann af kostnaði við þjónustuna.
Forsvarsmenn Intuens segja að Sjúkratryggingar Íslands hafi þá klæðskerasniðið útboðið þannig að nýtt fyrirtæki gæti ómögulega komið sér fyrir á markaðnum.
Hafa stofnanir á borð við Samkeppniseftirlitið og kærunefnd útboðsmála slegið á puttana á stofnuninni. Þá hefur umboðsmaður Alþingis einnig málið til skoðunar á sínum vettvangi.
Forsvarsmenn Intuens segjast þó ekki af baki dottnir. Og fyrirtækið býður upp á vinsæla þjónustu sem fólk greiðir að fullu fyrir sjálft. Felst það í svokallaðri heilmyndatöku eða heilskoðun en með henni er hægt að greina og bregðast við ýmsum undirliggjandi líkamlegum kvillum sem fólk getur verið einkennalaust af.
Viðtalið við Steinunni og Guðbjart má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: