Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur gengið frá samningi um áframhaldandi leigu á þremur þyrlum Landhelgisgæslunnar. Samningurinn er til næstu sjö ára.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Dómsmálaráðuneytinu.
Þyrlurnar eru af gerðinni Airbus Super Puma H225 en þær komu inn í þyrluflota Landhelgisgæslunnar á árunum 2019-2021. Þær eru sérstaklega útbúnar til leitar- og björgunarstarfa á norðlægum slóðum en með þessum nýja samningi verður útbúnaður þeirra bættur.
Dómsmálaráðherra segir samninginn mikilvægan fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar.
„Nýr leigusamningur fyrir björgunarþyrlur Landhelgisgæslu Íslands er ákaflega þýðingarmikill en með honum er viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar til leitar- og björgunar tryggð innan íslensku efnahagslögsögunnar næstu sjö árin hið minnsta. Þyrlurnar hafa gegnt lykilhlutverki við leit og björgun, sjúkraflutninga og almannaöryggi. Það er ljóst að þyrlurnar hafa skipt sköpum við afar krefjandi björgunaraðstæður bæði á sjó á landi,“ er haft eftir Þorbjörgu Sigríði í tilkynningunni.
Dómsmálaráðherra segir samninginn einnig endurspegla áherslur ríkisstjórnarinnar hvað varðar öryggismál, mikilvægt sé að tryggja öryggi fólks í landinu.
Umsaminn leigufjárhæð fyrir öll sjö árin sem þyrlunar eru leigðar er um átta milljarðar króna.
Lesa má meira um málið á Vef Stjórnarráðsins