„Við höfum ekki séð neina auglýsingu, þetta átti að gerast í síðustu viku og svo átti að gefa þessu þrjár vikur eftir að auglýsinginn væri komin í loftið til að sjá hvernig gengi. Við pressuðum á að það yrði tímarammi á þessu,“ segir Erna Sigurðardóttir móðir á Seltjarnarnesi þar sem leikskólamál hafa um nokkurt skeið verið í ólestri.
Vísar Erna til auglýsingar eftir annars vegar dagforeldrum sem vilja starfa í húsnæði á vegum bæjarins í Seltjarnarneskirkju og hins vegar dagforeldrum sem vilja starfa í eigin rými, en fyrirætlun um auglýsingarnar var kynnt foreldrum á fundi með bæjarstjóra nýverið.
Önnur áhyggjufull móðir, Erna Katrín Árnadóttir, ræddi við mbl.is í gær, Seltirningur í fjórða ættlið sem kvaðst í viðtalinu aldrei hafa íhugað að flytja af Nesinu fyrr en hún átti börn.
„Eftir næturvakt kem ég beint heim og fer með son minn út á róló, svo sér maður ungbarnaleikskólann í útiveru og börnin öll að syngja Hjólin á strætó, og ég er þarna eins og einhver vofa að ýta honum í rólunni,“ sagði Erna við mbl.is í gær.
Erna Sigurðardóttir segir foreldra á Seltjarnarnesi hafa óskað eftir að fá að sjá útreikninga sem sýndu að dagforeldralausnin væri hagkvæmari fyrir bæinn en sú leið að opna nýja deild á ungbarnaleikskólanum. „Við óskuðum eftir að inn í reikninginn yrði tekið tekjutap vegna útsvars sem bærinn verður af ef foreldrar komast ekki inn á vinnumarkað fyrr en haustið 2026. Við höfum ekki fengið svar, hvorki frá bæjarstjóra né sviðsstjóra fjölskyldusviðs,“ segir hún og reiknar ekki með svari fyrr en eftir páska.
„Við erum að vona að enginn sæki um sem dagmamma eins og er þannig að þetta pláss sem bærinn er með á leigu í kirkjunni, sem hefur áður verið nýtt sem leikskóladeild og getur tekið við sextán börnum, verði sett á stofn aftur og þessi sextán pláss í viðbót myndi þá dekka börn sem eru fædd í apríl og maí. Árgangurinn er ekkert stærri en venjulega en það eru svo mörg börn sem eru fædd í byrjun árs,“ heldur móðirin áfram.
Segir hún enga hæfu að fólk þurfi að reyna að eignast börn fyrri hluta árs til að fá leikskólapláss. Sjálf er hún móðir drengs sem átti eins árs afmæli á sunnudaginn og hafi þau maður hennar gert ráð fyrir plássi fyrir hann í október og þurfa þá að brúa bilið þangað til. „En nú vitum við ekki hvað við eigum að gera næsta árið. Það eru engar dagmömmur þannig að það væri frábært að samhliða opnun fleiri leikskólaplássa væri hvati til dagmamma að opna hérna á Seltjarnarnesi,“ segir Erna.
Rifjar hún upp að svokallaðar heimgreiðslur hafi verið lagðar af fyrir nokkrum árum og á hverju ári kæmi fram hópur nýrra foreldra sem spyrði sömu spurninganna en fengi engin svör. Ráða þyrfti inn fjóra starfsmenn til að opna nýja deild leikskólans og væri árlegur kostnaður við þá 50 milljónir.
„Við spurðum hvort 50 milljónir væri mikill kostnaður í stóra samhenginu, bæði varðandi gæði þjónustunnar sem börnin væru að fá – að komast inn á leikskóla heldur en til dagmömmu – og það að foreldrar sextán barna kæmust út á vinnumarkaðinn og gætu greitt útsvar. Við spurðum hvort það hefði verið reiknað út hvaða áhrif það hefði á útsvar bæjarins ef helmingurinn af foreldrum hérna inni [á fundinum] dytti út af vinnumarkaði,“ segir Erna frá og í því augnamiði hafi foreldrar einmitt falast eftir útreikningum á hagkvæmni dagmamma miðað við opnun nýrrar leikskóladeildar.
Þú sagðir að erfitt hefði verið að komast að hjá dagmömmu í Reykjavík þar sem borgin hefði tekið fyrir það með tilkomu [vefgáttarinnar] Völu. Hvernig kom það til?
„Nú var verið að setja dagmömmur inn í Völu líka svo núna þurfa börn að vera með lögheimili í Reykjavík til að geta sótt um þessa þjónustu í Reykjavík. Áður gátum við sótt um dagmömmur þar, en nú er búið að taka fyrir það,“ svarar Erna.
Út í þetta hafi foreldrar einnig spurt bæjarstjórn Seltjarnarness á fundinum. „Þeir sögðust ekki enn þá hafa farið í það mál að ræða þetta við Reykjavíkurborg [...] og þess vegna er þessi hópur núna, sérstaklega foreldra barna fæddra í apríl-maí, í miklum vandræðum,“ segir Erna frá og kveður stöðuna á Seltjarnarnesi í raun verri en í öðrum sveitarfélögum.
Hún kveður það mikilvægt svo að fjölskyldur geti haldið heimili að báðir foreldrar geti sinnt sínum störfum. „Verður þetta þá jafnréttismál, af því að það er oft konan sem tekur á sig að vera heima, er þetta þá farið að draga úr því að ungar konur á Seltjarnarnesi komist út á vinnumarkaðinn?“ spyr hún í framhaldinu.
„Ég er búin að segja við minn yfirmann að við reiknuðum með plássi í fyrsta lagi í október og ég yrði í einhverju „djöggli“ fram að því. En hvað á maður þá að gera núna þegar maður er ekki kominn með pláss og það eru engin önnur úrræði. Það eina sem ég get sagt er að ég sé í einhverri baráttu við bæinn og vonandi komist hann inn. Það væri skárra ef hann kæmist inn um áramótin, þá er alla vega eitthvað bjartara fram undan, en gagnvart vinnuveitandanum er það heilt ár í viðbót,“ segir Erna frá.
Vill hún sérstaklega benda á að tvær dagmömmur geti starfað í því rými sem bærinn er með á leigu. „Ef þær eru nýjar geta orðið til átta pláss og þeir [bærinn] geta sett kröfu um, eða ætla að reyna það, að lögheimili barna sem komist að hjá dagmömmu sé hérna á Seltjarnarnesi, eins og Reykjavík er að gera sín megin, en þeir geta ekki sett frekari kvaðir á dagmömmur, til dæmis sagt þeim að taka inn af biðlista á ungbarnaleikskólanum, vegna þess að í reglugerð kemur fram að dagmömmur séu sjálfstætt starfandi,“ segir Erna.
Sé frelsi dagmamma slíkt eigi þeir að geta ráðið inntöku barna sjálfar. „En þá gætu þær líka ákveðið að taka inn yngri börn, sem er heppilegra fyrir þær, taka til dæmis inn börn fædd á þessu ári þannig að áfram sitji kannski foreldrar barna fæddra 2024 í súpunni af því að þessi dagmömmulausn sem bærinn er að ýta áfram hjálpar þessum hópi ekkert. Það er ekki hægt að koma okkur að samkvæmt biðlistanum og við erum þá bara komin í samkeppni um dagmömmupláss eins og var áður,“ heldur Erna áfram sem er lögfræðingur að mennt og hyggst kynna sér hvert raunverulegt frelsi dagmamma sé samkvæmt reglugerð um störf þeirra.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.