Drengur sem hefur verið í meðferð og greiningu á meðferðarheimilinu Blönduhlíð, sem tímabundið er staðsett á Vogi, hefur strokið 15 sinnum síðan hann hóf meðferð þar í febrúar.
Flest þau skipti sem drengurinn hefur strokið hefur hann komist í fíkniefni og verið neyðarvistaður á Stuðlum í framhaldinu. Móðir drengsins segir hann í raun enga meðferð hafa fengið síðustu vikurnar vegna þess hve mikill tími hefur farið í strok og neyðarvistun. Hann sé alltaf á byrjunarreit.
Eftir um tvær til þrjár vikur á hann að ljúka meðferð í Blönduhlíð og hefur móðirin ekki fengið skýr svör um það hvort möguleiki sé á að framlengja meðferðina, þar sem lítill árangur hafi náðst vegna stroka, þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því. Hámarkstími meðferðar í Blönduhlíð er 12 vikur.
„Það er galið að ætla að stoppa meðferðina og segja að þau geti ekki haft hann lengur en í 12 vikur. Það hefur ekki verið hægt að gera frekari greiningar því þetta er enginn edrútími. Og Barna- og fjölskyldustofa virðist ekki ætla að finna neinar langtímalausnir fyrir drengi innan ásættanlegs tímaramma,” segir móðirin.
„Þetta eru bara átta til tólf vikur og svo eru börnin komin út í sama félagsskapinn. Hvernig heldurðu að þetta fari allt?“ spyr hún.
Strok hefur verið töluvert vandamál í Blönduhlíð, líkt og mbl.is hefur greint frá, en í vikunni struku þaðan fjögur börn í einu. Á þessu ári eru komnar 22 leitarbeiðnir vegna stroka af meðferðarheimilinu, sem var opnað í febrúar síðastliðnum.
Í sumum tilfellum hefur verið leitað að börnunum klukkutímum saman, en stundum finnast þau fljótt. Hafa börnin verið að fara út um glugga á annarri hæð, en í mars slasaðist 15 ára gömul stúlka alvarlega þegar hún féll við stroktilraun. Stúlkan hryggbrotnaði við fallið.
Guðmundur Fylkisson lögreglumaður, sem leitað hefur að týndum börnum í um áratug, sagði í viðtali á mbl.is í mars að börnin virtust eiga auðveldara með að strjúka úr Blönduhlíð en af Stuðlum. Á Stuðlum séu gluggarnir þannig að ekki sé hægt að opna þá alveg, en í Blönduhlíð fari börnin út um gluggana.
Samkvæmt heimildum mbl.is, bæði innan úr barnaverndarþjónustunni og meðferðarkerfinu, er það á mörkunum að meðferðaraðilum finnist þeir geta tryggt öryggi barnanna á Vogi.
Í skriflegu svari Barna- og fjölskyldustofu við fyrirspurn mbl.is segir að gerðar hafi verið ráðstafanir sem auki öryggi skjólstæðinga í Blönduhlíð, en ekki fengust svör við því hverjar þær eru.
Þær ráðstafanir virðast hins vegar ekki duga til, þar sem börnum tekst enn að strjúka nokkuð auðveldlega af meðferðarheimilinu og strokum virðist ekki hafa fækkað, að sögn Guðmundar.
Samkvæmt upplýsingum frá Barna- og fjölskyldustofu er meðferðarheimilið Blönduhlíð ekki lokað úrræði og samkvæmt heimildum mbl.is geta börn í raun gengið þar inn og út að vild, en kjósa engu að síður að strjúka út um glugga.
Það gekk nokkuð vel hjá umræddum dreng fyrstu tvær vikurnar í Blönduhlíð, en síðan þá hefur hann ítrekað reynt að strjúka eða náð að strjúka.
Móðirin hefur sjálf farið að leita að drengnum eftir strok, í samstarfi við lögreglu, og er orðin algjörlega uppgefin á ástandinu, sem var einnig slæmt áður en hann komst inn í Blönduhlíð. Hún hafði þá barist við að koma drengnum í meðferð mánuðum saman, en sex mánuðir liðu frá því að umsókn um meðferð var send til Barna- og fjölskyldustofu og hún samþykkt, og þar til hann komst inn í Blönduhlíð.
Möguleiki er á því að drengurinn geti komist í langtímameðferð á Stuðlum, þar sem ekkert annað langtímaúrræði fyrir drengi er til staðar og hefur ekki verið í heilt ár, eða frá því Lækjarbakka var lokað vegna myglu. Til stendur að opna aftur Lækjarbakka á nýjum stað í Gunnarsholti á Rangárvöllum, en það verður í fyrsta lagi í haust.
Móðirin hefur litlar væntingar um að langtímameðferð á Stuðlum skili einhverjum árangri, miðað við ástandið sem hefur ríkt þar. Innanbúðamaður á Stuðlum sagði í viðtali á mbl.is í mars að engin meðferð eða betrun ætti sér þar stað eins og sakir stæðu. Úrræðið væri eingöngu geymslustaður, þrátt fyrir góðan vilja starfsfólks til að gera vel. Á Stuðlum eru fjögur meðferðarpláss, en þar hafa meðal annars verið vistuð börn sem eru í gæsluvarðhaldi og afplánun.
Að mati innanbúðamannsins þarf langtímameðferð að fara fram fjarri höfuðborgarsvæðinu. Nálægðin við borgina auðveldi aðgengi að fíkniefnum og í útivist sé hætt við að drengirnir rekist á félaga eða einhverja sem þeim er í nöp við. Slíkt sé ávísun á uppþot og vandræði. Þá hafi fundist hnífar inni á herbergjum hjá drengjunum og fíkniefni komist reglulega í umferð innanhúss.
Móðirin er ekki spennt fyrir því að setja soninn inn í slíkar aðstæður.
„Það er bara neysla, meðferð og strok, en það eru minni líkur á stroki.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.