Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um 20 manna ungmennahóp með ólæti í anddyri Laugardalslaugar í gærkvöldi.
„Hópurinn ekki á leiðinni í sund heldur inni að „veipa“ og með almenn leiðindi við starfsfólk,“ er meðal þess sem segir um málið í dagbók lögreglu.
Kemur þar fram að starfsmaður laugarinnar hafi gert ítrekaðar tilraunir til að vísa hópnum út. Í síðustu tilraun hafi ein stúlkan í hópnum slegið starfsmanninn einu sinni í bringuna.
„Starfsmaðurinn var ekki með neinar kröfur. Hópurinn var á bak og burt þegar lögregla kom á staðinn,“ segir í dagbókinni.
Að sögn starfsmannsins var um að ræða þekktan krakkahóp sem hefur vanið komur sínar við helstu verslunarkjarna borgarinnar.