Frá áramótum hafa verið skráð 22 strok af meðferðarheimilinu Blönduhlíð, en það hóf starfsemi á Vogi í byrjun febrúar. Sjö strok eru skráð af Stuðlum á sama tíma og eru strok af meðferðarheimilum fyrir börn og unglinga því orðin 29 talsins á árinu.
Barna- og fjölskyldustofa vill meina að gerðar hafi verið ráðstafanir til að koma í veg fyrir að börn geti farið út um glugga í Blönduhlíð og tryggja öryggi þeirra, en strokum af meðferðarheimilinu hefur þó ekki fækkað.
Það sem af er ári eru komnar 93 leitarbeiðnir vegna týndra barna og unglinga en inni í þeim tölum eru áðurnefnd strok. Fyrstu fjóra mánuði síðasta árs voru leitarbeiðnirnar 54 talsins, en vert er að hafa í huga að aðeins eru þrír og hálfur mánuður liðnir af þessu ári. Leitarbeiðnum hefur nú þegar fjölgað um rúm 70 prósent á milli ára, en sú prósentutala verður væntanlega orðin hærri í lok mánaðarins.
Í apríl eru leitarbeiðnirnar orðnar 17, en meðaltal fyrir apríl síðustu 10 ára eru 13 beiðnir á mánuði.
Leitað hefur verið að 40 börnum og unglingum á þessu ári. Einu sinni hefur verið leitað að 19 börnum, en leitað hefur verið fjórum sinnum eða oftar að fimm börnum. Flestar eru leitarbeiðnirnar 16 fyrir einn og sama einstaklinginn. Af þeim 40 sem leitað hefur verið að eru 14 ný tilfelli, það er að segja börn sem ekki hefur verið leitað að áður.
Þetta kemur fram í gögnum sem lögreglumaðurinn Guðmundur Fylkisson hefur tekið saman, en hann hefur leitað að týndum börnum og unglingum í yfir áratug. Álagið á hann hefur verið mikið síðustu mánuði og segir hann ýmislegt mega betur fara.
Strok hefur verið töluvert vandamál í Blönduhlíð, líkt og mbl.is hefur greint frá, en í vikunni struku þaðan fjögur börn í einu. Veldur þetta töluverðri truflun á meðferð barnanna, en í flestum tilfellum leita þau aftur í neyslu þegar þau strjúka.
Í sumum tilfellum hefur verið leitað að börnunum klukkutímum saman, en stundum finnast þau fljótt. Hafa börnin verið að fara út um glugga á annarri hæð, en í mars slasaðist 15 ára gömul stúlka alvarlega þegar hún féll við stroktilraun. Stúlkan hryggbrotnaði við fallið.
Samkvæmt heimildum mbl.is, bæði innan úr barnaverndarþjónustunni og meðferðarkerfinu, er það á mörkunum að meðferðaraðilum finnist þeir geta tryggt öryggi barnanna á Vogi.
Í skriflegu svari Barna- og fjölskyldustofu við fyrirspurn mbl.is segir að gerðar hafi verið ráðstafanir sem auki öryggi skjólstæðinga í Blönduhlíð, en ekki fengust svör við því hverjar þær eru. Spurt var hvort gerðar hefðu verið ráðstafanir til að tryggja að börn kæmust ekki út um glugga og gætu slasað sig, og þá hverjar þær ráðstafanirnar væru.
Svo virðist sem þær ráðstafanir sem gerðar hafi verið dugi þó ekki til, þar sem leitarbeiðnum sem berast vegna barna sem strjúka úr Blönduhlíð er ekki að fækka.
Samkvæmt upplýsingum frá Barna- og fjölskyldustofu er Blönduhlíð opið úrræði þar sem leitast er við að gæta að meðalhófi og réttindum skjólstæðinga. Samkvæmt heimildum mbl.is geta börnin í raun gengið inn og út af meðferðarheimilinu að vild, en þau strjúka engu að síður út um glugga.
Viðmælandi innan barnaverndar sem mbl.is ræddi við í mars sagði að það gæfi auga leið að ef börn væru komin á þann stað að þurfa á inniliggjandi meðferð að halda vegna fíknivanda, þá væri ekki hægt að leggja það á þau að takast á við strokfíkn af þessu tagi. Þau væru alltaf að leita leiða til að halda sínu striki. Það þyrfti því að vera í boði lokuð úrræði fyrir ákveðinn hóp barna.
Lögreglumaðurinn Guðmundur Fylkisson bendir á að í sumum tilfellum samþykki börn að fara í meðferð og þá þurfi ekki lokað úrræði. En það sé alls ekki raunin með öll þeirra. Þegar börn eru undir 15 ára þá er það foreldranna að taka ákvörðun og samþykkja meðferðina fyrir þeirra hönd. Svo eru það börn sem barnavernd eða dómstólar úrskurða um að eigi að fara í meðferð.
„Þá er það nokkuð ljóst að krakkinn er ekki þar af fúsum og frjálsum vilja,“ segir Guðmundur. „Ég held að hlutirnir gætu verið í betri farvegi í þeim tilfellum þar sem krakkarnir eru ekki til samstarfs,“ segir hann jafnframt.
„Sumir krakkarnir eru alveg til í að fara í meðferð og þau reyna kannski að strjúka einu sinni eða tvisvar rétt á meðan þau eru að átta sig á umhverfinu sem þau eru komin í. Svo klára þau sína meðferð, en það er ekki þar með sagt að lífið verði rosa ljúft á eftir, sum þurfa tvær eða þrjár atrennur. En svo eru hin sem gera ekki annað en að strjúka. Þetta er nánast orðinn daglegur viðburður með sum þeirra. Það koma tarnir þar sem þetta er dag eftir dag.“
Miðað við fjölda leitarbeiðna sem berast getur Guðmundur ekki séð að nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir strok í Blönduhlíð
„Það er einkennilegt öryggi ef það koma fjögur út á sömu mínútunni.“
Þá er hann á því að erfitt sé að vinna markvisst meðferðarstarf þar sem börn eru sífellt að strjúka, enda verði þá aldrei rof á neyslunni. Árangurinn verði því takmarkaður.
„Þegar ástandið er þannig að það er búið að reyna í 12 vikur en það er lítið sem breytist, hvaða væntingar hafa menn til þess þegar þau fara svo aftur heim.“
Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, segir í skriflegu svari til mbl.is að það sé truflandi fyrir meðferð skjólstæðinga að vera sífellt að strjúka. Það geti hins vegar líka verið mjög truflandi fyrir skjólstæðinga að vera mjög innilokaðir í meðferð.
Spurður hvort fyrirkomulagið í Blönduhlíð henti nógu vel fyrir þá skjólstæðinga sem eru þar, segir Funi í svari sínu:
„Almennt hentar úrræðið þeim börnum sem þar eru. Í meðferð og greiningu í Blönduhlíð er metið hvort skjólstæðingar þurfi frekari meðferð eins og MST, framhaldsmeðferð eða annað. Við mat á því hvort Blönduhlíð sé viðeigandi meðferð þá byggir það mat á upplýsingum frá barnaverndarþjónustum, foreldrum og gerir BOFS áhættumat út frá þeim gögnum. Börn sem vistuð eru á meðferðarheimilum eru í miðlungs eða hárri áhættu.“
Ýmislegt sé gert til að reyna að koma í veg fyrir strok, en gott meðferðarsamband starfsmanna við skjólstæðinga sé sá þáttur sem dragi hvað mest úr líkum á stroki. Einnig sé mikilvægt að skjólstæðingar hafi nóg fyrir stafni.
Vakni grunur um að skjólstæðingur hyggi á strok sé mikilvægt að ræða það og hafa sérstakar gætur á honum.
Eftir strok sé mikilvægt að fara í einstaklingsvinnu þar sem farið sé yfir atvikið og hvernig hægt sé að yfirvinna það og koma í veg fyrir að það endurtaki sig.
Þá liggur það fyrir að skjólstæðingar missa stundum fríðindi ef þeir verða uppvísir að því að strjúka og þurfa í sumum tilfellum að fara á neyðarvistun.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.